139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

þingfrestun.

[19:33]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum þessa vorþings og er það eins nærri starfsáætlun sem gerð var í upphafi þings í haust og fært var. Ég er afar þakklát forustumönnum flokkanna, formönnum flokka og formönnum þingflokka, fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig við erfiðar aðstæður síðustu daga til þess að þingstörfum gæti lokið á sem næst tilsettum tíma.

Sem forseta er mér efst í huga afgreiðsla þingskapafrumvarpsins og frumvarps um rannsóknarnefndir. Það er einlæg von mín að þær veigamiklu breytingar sem við höfum gert á þingsköpunum verði Alþingi og störfum þess til heilla. Þá tel ég mikilvæg þáttaskil hafa orðið með samþykkt laga um rannsóknarnefndir. Almennar reglur um skipan á málsmeðferð fyrir opinberum rannsóknarnefndum hefur hingað til skort hér á landi. Með lögunum hefur verið bætt úr því.

Þótt við höfum nú lokið hefðbundnum störfum er þetta ekki síðasti þingfundurinn á þessu sumri. Við munum koma saman að nýju um miðja næstu viku, miðvikudaginn 15. júní, til sérstaks hátíðarfundar í Alþingishúsinu sem efnt er til í minningu 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar forseta á þessu ári. Þeim fundi verður útvarpað og sjónvarpað.

Nú við lok þinghaldsins vil ég þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu þingi. Ég vil færa varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins svo og formönnum þingflokka fyrir mjög gott samstarf á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og mjög gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna.

Hv. 4. þm. Norðvest. Gunnar Bragi Sveinsson tekur til máls.