139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef aldrei áður heyrt nokkurn mann vera jafnreiðan yfir góðum árangri [Hlátur í þingsal.] og hæstv. fjármálaráðherra hér áðan. En hver skyldi vera skýringin á því? Hún hlýtur að vera sú að árangurinn er ekkert sérstaklega góður. Hann er reyndar býsna lakur. Þess vegna þarf að reyna að segja fólki það, jafnvel með þjósti, að árangurinn sé góður vegna þess að menn upplifa það ekki á eigin skinni.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að allar áætlanir hefðu gengið eftir — allar áætlanir ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu gengið eftir. Þetta hljómaði mjög undarlega. Það hljómaði mjög undarlega fyrir þá sem búa á Íslandi og þrífast í íslensku samfélagi. Tækifærin hafa reyndar verið til staðar. Á Íslandi voru til staðar nánast allar helstu forsendur fyrir aukinni fjárfestingu eftir efnahagshrunið. Það er þekkt staðreynd að eftir mikið efnahagshrun fylgir oft og tíðum töluverð fjárfesting þegar dregur úr hræðslunni og menn þora að fjárfesta á ný. En hér hefur enginn þorað að fjárfesta.

Á Íslandi hefur verið mjög lágt skráð gengi. Það hefur verið nægt hæft vinnuafl. Hér er næg orka, nægt vatn. Innviðirnir eru sterkir, umhverfið aðlaðandi og friðsælt og staðsetning landsins er allt í einu orðinn kostur frekar en galli eins og komið hefur fram í erlendum fjölmiðlum að undanförnu í tengslum við umræður um hugsanlega fjárfestingu Kínverja á Íslandi. En ekkert af þessu hefur nýst.

Það er reyndar rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir, að áhugi erlendra fjárfesta hefur verið mjög mikill á Íslandi. Hæstv. forsætisráðherra sagði að áhugi erlendra fjárfesta hefði aldrei verið meiri en nú. Og það kann að vera að það sé rétt því að fjölmörg erlend fyrirtæki og fjárfestar og íslenskir þar á meðal hafa skoðað möguleikann á að fjárfesta hér í atvinnuuppbyggingu. En allir reka þeir sig á það sama. Það þorir enginn að fjárfesta í landi þar sem nýlega er búið að gera hundrað sinnum — hundrað sinnum — breytingar á skattkerfinu; hækka alla mögulega skatta, finna upp nýja skatta og flækja skattkerfið. Það þorir enginn að fjárfesta í landi þar sem ráðherrar í ríkisstjórn tala um þjóðnýtingu, tala eins og ekkert mál sé að breyta þeim reglum sem samfélagið starfar eftir á einni nóttu. Og það þorir enginn að fjárfesta í landi þar sem menn vita ekkert hvort þeir fá næga orku til þess að halda rekstri gangandi. Núverandi ríkisstjórn hefur í raun náð að stöðva alla þá hugsanlegu fjárfestingu sem hæstv. forsætisráðherra hefur verið að tala um með því að gera allt öfugt við það sem ætti að gera í kreppuástandi eins og því sem við búum við.

Enn hefur ekki fundist sú atvinnugrein sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð sættir sig við að byggt verði upp í. Samfylkingin lætur sér það í léttu rúmi liggja vegna þess að það er aðeins eitt mál sem kemst að í huga samfylkingarmanna á þingi, það er að komast í Evrópusambandið og þá verður einhvern veginn allt gott.

Hver eru viðbrögðin við þessu? Eru þau að breyta um stefnu? Læra af reynslunni? Nei, það er eitthvað annað. Það er bara haldið áfram að búa til nýjar og nýjar spár um það að á næsta ári verði ástandið betra; spár undanfarinna ára hafi reyndar ekki gengið eftir, en á næsta ári verði ástandið miklu betra, næst verði staðið við gerða samninga, næst verði staðan allt öðruvísi. En hún verður ekki allt öðruvísi nema menn breyti um stefnu. Meira að segja ASÍ er nóg boðið og búið að gefast upp á stefnu þessarar ríkisstjórnar. Svo oft er ríkisstjórnin búin að svíkja gefin fyrirheit gagnvart aðilum vinnumarkaðarins að þeir eru hættir að treysta nokkru sem þaðan kemur.

Þolinmæði Íslendinga, ekki bara Samtaka atvinnulífsins og ASÍ heldur almennings í landinu, er algjörlega á þrotum. Það sjáum við á áframhaldandi landflótta; landflótta sem hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar gera lítið úr og líta algjörlega fram hjá þegar talað er um atvinnuástandið í landinu. Í landinu sem háskólakennarar kölluðu í fyrra eða hittiðfyrra Kúbu norðursins eða Norður-Kóreu vestursins er beitt svipuðum hagstjórnaraðferðum og beitt er í þeim löndum. Fólki er einfaldlega sagt að ástandið sé mjög gott. Því er sagt að allar spár bendi til þess að hin farsæla ríkisstjórn sé á réttri braut og hagsæld þjóðarinnar aukist jafnvel þótt atvinnuástandið sé eins og það er, jafnvel þótt fjárfesting sé í sögulegu lágmarki og jafnvel þótt ekki sé enn tveimur til þremur árum eftir efnahagshrun búið að leysa úr skuldaflækjunni og skuldavanda fyrirtækja. Fólki er bara sagt að það hafi það gott. Því er sagt að ástandið sé alveg ágætt.

Hver er afleiðingin? Jú, fólk streymir burtu í leit að tækifærum annars staðar. Enn er reyndar ekki farið að hamla fólksflótta á landinu með því að banna fólki að flytjast á brott, en menn eru hins vegar farnir að beita sambærilegum aðferðum og í Kúbu og annars staðar með gjaldeyrishöftum sem átti að afnema á síðasta ári, en hefur í staðinn verið ákveðið að framlengja um fyrirsjáanlega framtíð og herða stöðugt á. Við þessar aðstæður er því miður ekki mikil von til þess að það verði verulegur viðsnúningur. Þetta birtist m.a. í fjárlagagerð ríkisstjórnarinnar. Þar er hvað eftir annað verið að byggja fjárlög á óraunhæfum spám; byggja fjárlögin á því að ástandið verði miklu betra á næsta ári en á yfirstandandi ári. Hver er raunin? Spárnar ganga ekki eftir og þar af leiðandi standast fjárlögin ekki.

Hæstv. forsætisráðherra gerir mikið af því að bera hallann á ríkissjóði nú saman við árið sem hrunið var að ganga yfir. Hvers konar samanburður er það? Raunin er sú að spárnar hafa ekki staðist. Það átti að vera kominn dálítill hagvöxtur í fyrra, árið 2010, og á þessu ári hafði verið spáð 5% hagvexti. Þetta mun ekki ganga eftir. Jöfnuður í ríkisfjármálum mun ekki ganga eftir. Ekkert af spám ríkisstjórnarinnar gengur eftir og þá eru bara búnar til nýjar spár.

Það er reyndar rétt að ástandið hefði getað orðið miklu verra. En hvað hefur bjargað því sem bjargað varð? Er það ekki fyrst og fremst það að Íslendingar settu ekki gríðarlegt fjármagn í að halda bönkunum gangandi, eins og til að mynda á Írlandi? Hæstv. forsætisráðherra bar saman stöðuna á Íslandi og Írlandi. Lágt gengi íslensku krónunnar hefur ýtt svo undir útflutning að það hefur bjargað því sem bjargað varð hvað varðar hagvöxt og landsframleiðslu. En jafnvel þar er reynt að vega að möguleikum okkar. Allar undirstöðuatvinnugreinar landsins eru í viðvarandi uppnámi og stöðugri óvissu, mikilvægustu útflutningsgreinarnar ekki hvað síst.

Hæstv. fjármálaráðherra gagnrýndi reyndar samstarfsflokkinn fyrir árásir samfylkingarmanna á landbúnaðinn. Það var ágætt að benda á hversu ómálefnalegar og ómaklegar þær árásir eru, en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur hins vegar tekið fullan þátt í því að setja íslenskan sjávarútveg í fullkomið uppnám.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði líka um kosti orkuframleiðslunnar. Hann hefur sagt í viðtali: „Guði sé lof fyrir Landsvirkjun.“ Einhvern tímann hefði það þótt tíðindum sæta að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon þakkaði guði fyrir Landsvirkjun. En hæstv. ráðherra er búinn að sjá hversu miklu máli orkuframleiðslan skiptir íslenska þjóðarbúið. Hún og svo margt annað skapar tækifæri á Íslandi. Þau tækifæri er ekki verið að nýta. En með breyttri stefnu má snúa dæminu hratt við með því að koma hér á stöðugleika í skattamálum og einfalda skattkerfið en umfram allt skapa trúverðugleika um að hér muni ríkja stöðugleiki, skapa jákvæða hvata í staðinn fyrir neikvæða til að ýta undir fjárfestingu, svoleiðis að menn þori að ráða fólk í vinnu og sjái sér hag í því, og veita lágmarks pólitískan stöðugleika, þ.e. skapa þá trú að ríkisstjórnin muni ekki einn daginn gjörbylta heilli atvinnugrein og að ríkisstjórnin hætti að þvælast fyrir umhverfisvænni orkusköpun.

Ef tekið væri á þessum málum með stefnubreytingu mætti fljótt nýta þau miklu tækifæri sem eru þrátt fyrir allt til staðar á Íslandi enn þá. Á meðan afneitunin heldur áfram, á meðan brugðist er við með því að reyna einfaldlega að telja fólki trú um að ástandið sé gott og birta nýjar og nýjar spár um að það fari batnandi á næstu árum en breyta í engu stefnunni þá verður ekki mikil breyting til hins betra. Afneitun skilar engum árangri. Þetta er sérstaklega mikilvægt hvað varðar stöðu íslenskra heimila. Þar hefur ríkt algjör afneitun hjá þessari ríkisstjórn í meira en tvö ár.

Það er orðið tímabært að afneituninni linni hjá ríkisstjórninni, hún geri sér grein fyrir því hver staða íslenskra heimila er, geri sér grein fyrir því að það þarf að taka á skuldamálum heimila og fyrirtækja með almennum hætti svoleiðis að fyrirtækin þori að ráða fólk í vinnu, heimilin þori að fjárfesta, efnahagslífið komist af stað og við getum nýtt þá miklu kosti sem hér eru þrátt fyrir allt til staðar. En sú hefur ekki verið raunin. Í staðinn fáum við að heyra ræður eins og hjá hæstv. forsætisráðherra eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lauk störfum sínum hér þar sem því er haldið fram að áætlanir hafi allar gengið eftir. Var áætlunin sú að hér væri ekki kominn af stað raunverulegur hagvöxtur árið 2011? Var áætlunin sú að þúsundir manna flyttust úr landi í leit að vinnu? Var áætlunin sú að svíkja stöðugleikasáttmálann? Var áætlunin sú að fjárfestingar færu niður í 10% — tíu prósent, helminginn af því sem þarf til að halda í horfinu? Og var áætlunin sú að enginn þeirra stóru atvinnuverkefna sem hafa verið forsenda fjárlaga gengi eftir? Ef þetta var áætlunin þurfum við nýja áætlun.