139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Nú er orðið ljóst að Ísland verður undir eftirliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í stað þess að öðlast sjálfstæði frá sjóðnum. Ástæðan er kreppudýpkandi efnahagsáætlun sem fylgt hefur verið frá hruni, efnahagsstefna sem ekkert tillit tók til raunhagkerfisins, heimilanna og fyrirtækjanna. AGS kom í veg fyrir að lágt gengi krónunnar og halli ríkissjóðs hefðu örvandi áhrif á efnahagslífið með hávaxtastefnu sinni og andstöðu við skuldaleiðréttingar. Hagvöxturinn hefur því verið mun minni en gert var ráð fyrir og atvinnuleysið meira.

Röng efnahagsstefna AGS og ríkisstjórnarinnar hefur íþyngt heimilum og fyrirtækjum langt umfram það sem nauðsynlegt var. Allt of margir hafa misst vinnuna og séð eignarhlut sinn í fasteign verða að engu. Nú er svo komið að tvær þjóðir búa í landinu. Önnur sekkur sífellt dýpra í skuldafenið vegna atvinnumissis og verðtryggingar. Hin reynir að koma peningunum sínum í verð áður en verðbólgan étur þá upp. Skjaldborgin um fjármagnseigendur hefur alið af sér vaxandi misskiptingu og stutt er í að upp úr sjóði meðal þeirra sem svíður óréttlætið og fátæktin. Óánægjan snýst ekki um bölsýni heldur óréttlætið og misskiptinguna.

Frú forseti. Það er sorglegt að fyrsta hreina vinstri stjórnin skuli nú fá fyrstu einkunn hjá AGS fyrir að skera niður hraðar hallann á ríkissjóði en sjóðurinn krafðist. Norræna velferðarstjórnin bjargaði auk þess trúverðugleika AGS með framlengingu samstarfs síns um níu mánuði þannig að samstarfinu lauk ekki á síðasta ári þegar samdrátturinn var 3,5%.

Frú forseti. Ég skora á stjórnarflokkana að taka upp nýja efnahagsstefnu jafnaðar og velferðar sem felur í sér a.m.k. sex bráðaaðgerðir. Í fyrsta lagi vaxtalækkun eða vaxtaákvarðanir sem taka mið af efnahagsreikningi heimila og fyrirtækja í landinu en ekki hagsmunum fjármagnseigenda. Vaxtahækkanir draga úr fjárfestingum, ógna gengisstöðugleikanum og hækka vaxtakostnað ríkissjóðs.

Í öðru lagi þarf að leggja skatt á aflandskrónur til að koma í veg fyrir gengislækkun og til að auðvelda afnám gjaldeyrishafta.

Í þriðja lagi á að leggja skatt á tekjuauka útflutningsfyrirtækja vegna of lágs gengis í stað niðurskurðar og skattahækkana sem auka verðbólguna og fjölgar atvinnulausum og þeim sem ekki ná endum saman.

Í fjórða lagi þarf að móta auðlindastefnu sem tryggir sjálfbærni og að þjóðin fái hámarksarð af nýtingu auðlindanna í stað þess að falbjóða þær fjárfestum sem eiga gjaldeyri og lofa að skapa vinnu sem ungt fólk vill ekki vinna.

Í fimmta lagi þarf að fara fram almenn skuldaleiðrétting í tengslum við afnám verðtryggingar til að létta á skuldsettum heimilum og fyrirtækjum. Ef það krefst þess að við tökum upp nýjan gjaldmiðil eigum við að gera það. (Forseti hringir.) Án skuldaleiðréttingar verður enginn langvarandi efnahagsbati.

Að lokum, frú forseti, við þurfum að móta skjaldborg utan um þá atvinnulausu, tekjulágu, eignalausu og fjölskyldur þeirra.