139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég fær fjórar mínútur til þess að tala um efnahags- og atvinnumál sem óháður þingmaður og ég er bara ævinlega þakklátur fyrir það. Ég er að hugsa um að nota þær fjórar mínútur til að tala um eitt hugtak, láta það nægja. Það er hugtak sem var mikið tekið fyrir kosningar 2003 og ég held líka fyrir kosningar 2007, það stóð upp úr öðrum hverjum frambjóðanda að hér þyrfti að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum.

Það er eitthvað svo merkilegt stundum að rifja upp hvað þetta mistókst ævintýralega. Ég held að það sé kannski ein ástæða þess að við erum rétt núna, greini ég í umræðunni, byrjuð að þora að nota þetta hugtak aftur, stöðugleiki.

Hvað gerðist? Gjaldmiðillinn okkar hrundi algjörlega niður í kjallara með ótrúlegum afleiðingum. Fjármagnsliðir í rekstri meðalbúa á Íslandi hækkuðu um svona 700%. Einn góður hagfræðingur orðaði þetta ágætlega um daginn á fundi, hann sagði: Svona sjálfstæð króna í frjálsu fljótandi gengi, jú, jú, hún hefur kannski einhverja kosti en hún er þess megnug að setja öll fyrirtæki í einu á hausinn, öll í einu. Það er nokkurn veginn það sem gerðist. Efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja fóru hér gjörsamlega í rúst og það er fólk hér inni sem stóð í atvinnurekstri og horfði upp á fyrirtækin sín gjörsamlega húrra á höfuðið í einu vetfangi.

Núna er AGS farið, björgunarstarfinu kannski lokið sem við köllum svo. Það hefur gengið sumpart ágætlega, sumpart ekki, það er engin svart/hvít mynd í því. En nú þurfum við að takast á við spurningarnar: Hvernig fyrirbyggjum við að íslenskt samfélag fari í aðra eins kollsteypu? Hvernig búum við til stöðugleikann? Við skulum aftur fara að tala um það hugtak, óhrædd, og takast þá á við það að í þessu hugtaki, í þeirri spurningu hvernig við komum á stöðugleika í íslensku samfélagi blasa líka við stærstu viðfangsefnin. Þá verðum við líka að fara að viðurkenna að það er risastór bleikur fíll í þessu herbergi og hann er að rústa hérna allt saman og það er krónan. Við verðum að finna lausn á gjaldmiðilsvandamáli Íslendinga, öðruvísi aukum við ekki tiltrú á þessu samfélagi. Öðruvísi fyrirbyggjum við ekki það að hér verði aftur sveiflusamfélag með tilheyrandi kollsteypum, jójó- og skopparakringlusamfélag þar sem enginn getur geti gert plön, þar sem það að panta sér utanlandsferð er eiginlega bara mjög flókinn afleiðusamningur.

Við getum ekki farið í það að skapa hér aftur samfélag þar sem við erum öll, bara með því að vera Íslendingar og búa hér, spákaupmenn. Við getum ekki skapað þannig samfélag og réttlætt það fyrir komandi kynslóðum að það tekur Íslendinga með þessa krónu a.m.k. tíu árum lengri tíma að safna sér fyrir sambærilegum lífsgæðum, íbúð og húsi, en Evrópubúar. Þetta er ekki viðunandi, við getum ekki boðið upp á þetta.

Hvað blasir við? Við getum valið okkur frjálsa krónu. Hún kemur ekki aftur, ég hef enga trú á því. Það er stærsti raunveruleikinn sem blasir við. Við getum haft krónu í höftum eða handstýrða krónu, við höfðum það um árabil. Við höfðum gjaldeyrishöft í 50 ár, frá því að bankarnir fóru á hausinn þarna 1930 og Bretar urðu líka brjálaðir þá. Þá höfðum við gjaldeyrishöft í 50 ár og þá höfðum við líka handstýrt gengi. Við getur horfið aftur til þess og kannski nýtt svalirnar hér til þess að tilkynna gengið. Við getum farið í þannig samfélag. Ég vil það ekki. (Forseti hringir.) Mín trú er að lausnin liggi í samvinnu þjóða um þetta vandamál (Forseti hringir.) og að í samvinnu þjóða finnum við hinn stöðuga grundvöll undir rekstur heimila og atvinnulífs í landinu. Þangað eigum við að leita.