139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú þegar við stöndum á þeim tímamótum að vera komin úr samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og höfum uppfyllt þau markmið sem þar voru sett þá getur engum dulist, nema þá helst stjórnarandstöðunni, að lyft hefur verið grettistaki í endurreisn efnahagslífs landsins. Búið er að ljúka fjölmörgum erfiðum verkefnum sem Alþingi og ríkisstjórn fengu í fangið eftir efnahagshrunið og fram undan bíða stór verkefni eins og grundvallarbreytingar á stjórn fiskveiða og vinna við rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda landsins til framtíðar og í sátt við þjóðina.

Mikill stormsveipur hefur leikið um vinnu við þessa stóru málaflokka og er þar tekist á um grundvallarstefnur, hvernig við högum nýtingu á náttúruauðlindum landsins, hverjir eiga að hafa rétt til nýtingar og til hve langs tíma, hvert afgjaldið á að vera og hvernig við göngum um auðlindirnar. Hver er almannaréttur gagnvart eignarrétti? Eiga auðlindirnar að vera framseljanlegar og hægt að veðsetja þær? Hvert á hlutverk ríkisins að vera í stýringu á umgengni á nýtingu á auðlindum til lands og sjávar? Þetta eru spurningar sem skipta munu komandi kynslóðir gífurlega miklu máli og við verðum að horfa til langs tíma þegar við vegum og metum hvernig við lögfestum nýtingu á umgengni við auðlindirnar og hvað við viljum friða til frambúðar.

Atvinnuleysið er mikið mein og það stóra verkefni sem áfram verður glímt við. Mikið hefur áunnist í mennta- og vinnumarkaðsaðgerðum en halda verður áfram af fullum þunga og mæta þeim hópum sem mest hætta er á að læsist inni í langtímaatvinnuleysi. Opinberar framkvæmdir, eins og bygging nýs fangelsis og nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss, eru að fara í gang og samráðsvettvangur í eflingu atvinnu og byggðar á Vestfjörðum og á Suðurnesjum hefur skilað góðum árangri og skiptir miklu máli að haldið verði áfram á þeirri braut á þeim svæðum sem illa standa.

Verkefnið fram undan er að koma því fjármagni sem liggur í bönkum og lífeyrissjóðum landsins í vinnu sem skapar atvinnu og störf í framhaldinu. Þar getur ríkið ekki eitt og sér ráðið för. Það þarf líka áræðni og tiltrú almennings og fyrirtækja á að fjárfesta að nýju og horfa til þess að við erum á réttri leið í endurreisninni. Hagur ríkissjóðs fer ört batnandi og þær erfiðu aðgerðir sem þurft hefur að grípa til eru að skila árangri og er því fullt efni til bjartsýni. Seðlabankinn hefur fulla ástæðu til að lækka hraðar stýrivexti því að nú er nauðsynlegt að fá fjármagn í umferð í arðsamar framkvæmdir.

Mikill hræðsluáróður hefur gengið yfir þjóðina þessa dagana um að það hrikti í þjóðarskútunni ef breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu nái fram að ganga. Þúsundir starfa munu tapast, lánasjóðir bankanna fara í uppnám og ekkert bíður okkar nema vesöld og volæði ef þessari ríkisstjórn tekst að ljúka því ætlunarverki sem hún var m.a. kosin út á, þ.e. að breyta fiskveiðilöggjöfinni.

Ábyrgir aðilar sem gagnrýna hvað hæst allar breytingar bera fyrir sig hagsmuni landverkafólks, sjómanna, þjónustuaðila og hag sjávarbyggðanna. Hvar var barátta og varnarstaða þessara hagsmunaaðila þegar fólk missti vinnuna og ævistarfið í húseignum sínum við það að hrekjast úr sjávarbyggðunum í kjölfar hámarkshagræðingar innan sjávarútvegsins? Voru þá heildarhagsmunir hafðir að leiðarljósi eða var það réttur fárra til að hagræða sér í hag í skjóli framsals og ná til sín stærri og stærri skerf af sjávarauðlindinni en láta sig litlu varða afleiðingarnar fyrir íbúana og byggðarlögin?

Það þarf enginn að segja mér að ekki megi gera þær breytingar á kerfinu sem tryggja betur atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggðanna og meira jafnræði í nýtingu á aðgengi að fiskimiðunum. Nú þegar hafa þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórn fiskveiða skilað fjölda starfa til sjós og lands. Þar má nefna strandveiðar, skötuselinn, makrílveiðar, takmarkanir á útflutningi á óunnum fiski og fullvinnslu á nýtingu sjávarafla svo að eitthvað sé nefnt.

Innlegg matvælaframleiðslu skiptir þjóðarbúið gífurlega miklu máli hvort sem það eru sjávarafurðir, fiskeldi, landbúnaðarframleiðsla eða ylrækt. Þarna liggja mikil tækifæri í áframhaldandi uppbyggingu og fjölgun starfa. Eftirspurn eftir heilnæmri fæðu á aðeins eftir að aukast innan lands sem og erlendis. Þá skipta gæði og upprunavottun hráefnis miklu máli fyrir alla matvælaframleiðslu í landinu.

Þegar við horfum til mikillar uppbyggingar í ferðaþjónustu og þeirrar fjölbreytni sem er í greininni í stórum og litlum ferðaþjónustufyrirtækjum vítt og breitt um landið þá eigum við líka að geta haft sömu möguleika innan sjávarútvegsins, að þar geti þrifist fjölbreytt útgerðarmynstur vítt og breitt um landið sem skilar arði til samfélagsins og fleiri störfum og traustari undirstöðu fyrir byggð í landinu. Mikil samþjöppun í atvinnugreinum, hvort sem er um að ræða ferðaþjónustu, sjávarútveg, landbúnað eða verslun, kann ekki góðri lukku að stýra. Á því höfum við brennt okkur illilega. Aukning aflaheimilda á nýbyrjuðu fiskveiðiári mun skila sér í auknum tekjum og fjölgun starfa. Breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu munu leiða til aukinna þjóðartekna, fjölgunar starfa og bætts atvinnuöryggis, einnig betri nýtingar fjárfestinga í sjávarbyggðum, fjölbreyttara útgerðarmynsturs og aukins jafnræðis og möguleika á nýliðun í greininni og síðast en ekki síst þess að þjóðin fái sanngjarnan arð af auðlindinni.

Nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp mun koma fram á haustþingi og er mikilvægt að horft sé til tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þar sem segir að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar sem bannað verði að selja eða veðsetja. Tillagan rímar algerlega við vilja stjórnvalda og þorra landsmanna. Yfirráðaréttur og sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins og á nýtingu þeirra er lykilatriði fyrir sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar til framtíðar og fyrir byggð í landinu. Það skulum við muna í þeirri orrahríð sem hafin er um auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar.