139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér skýrslu forsætisráðherra um stöðuna í efnahags- og atvinnumálum. Í umræðunni hafa dúkkað upp hefðbundin sjónarmið stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarliðar segja allt á uppleið en þó auðvitað aðallega í samanburði við önnur lönd þar sem staðan hefur versnað.

Ég vil þó taka fram að það var gott að heyra iðnaðarráðherra tala um „eitthvað annað“ en stóriðju. Stundum er því haldið fram að þetta eitthvað annað í atvinnumálum sé einfaldlega ekki til en ég trúi á þetta eitthvað annað. Þá eru talin upp ýmis verkefni sem eru, og hafa reyndar lengi verið, rétt handan við hornið.

Fulltrúar hinna hefðbundnu stjórnarandstöðuflokka gagnrýna einnig með hefðbundnum hætti, segja ríkisstjórnina bæði verklausa og áttavillta en þó of árásargjarna þegar kemur að sjávarútvegi enda ríður á að bjarga kvótakerfinu, bjarga sérhagsmununum og tryggja með ráðum og dáð að nýja Ísland verði gamla Ísland þar sem samtrygging stjórnmálamanna og viðskiptalífsins blífur.

Hér hefur verið rætt um atvinnuleysi. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar halda því fram að það sé á niðurleið. Að mínu mati er ósmekklegt að tala um minnkandi atvinnuleysi á meðan fleiri flytja frá landinu í leit að betra lífi, atvinnu og tækifærum en flytja heim aftur. Á hverjum degi missum við frábært fólk úr landi. Þannig er það og það verður að horfa á heildarmyndina, annað er blekking.

Hér hefur einnig verið töluvert rætt um erlenda fjárfestingu, öllu heldur skort á henni. Þó hefur ekkert verið rætt um stærstu erlendu fjárfestinguna þegar fjármálaráðherra afhenti erlendum vogunarsjóðum tvo hina endurreistu banka og gaf þeim skotleyfi á íslensk heimili. Gleymum ekki yfirlýstu markmiði hinna endurreistu banka sem var að hámarka endurheimtur og viðhalda greiðsluvilja. Á mannamáli þýðir það að blóðmjólka fólkið, kreista hvern dropa út úr heimilunum og fyrirtækjunum.

Hér hefur einnig verið fjallað um auðlindir Íslands og nýtingu þeirra en kannski er stærsta auðlindin skuldsettir Íslendingar sem eru látnir hlaupa eins og hamstrar á skuldahjólinu. Það skiptir engu hve mikið er greitt, skuldirnar hækka, fólkið fer jafnvel í annað sinn í gegnum 110%-leiðina því að lánin halda áfram að hækka þrátt fyrir að greitt sé af þeim eftir bestu getu.

Forseti. Forsenda fyrir alvöruendurreisn efnahags- og atvinnulífsins er að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja af sanngirni. Eins og framkvæmdin er nú er þeim refsað sem sýndu ráðdeild og útsjónarsemi, lögðu sparnað sinn í heimilið. Þeir sem fóru varlega uppfylla ekki skilyrði 110%-leiðarinnar. Þeir sem tóku 100% lán og áttu aldrei krónu í húsnæði sínu fá niðurfellingu skulda. Þetta fyrirkomulag er fáránlegt. Hvaða skilaboð eru stjórnvöld að senda með því að refsa fyrir ráðdeild?

Samtök fjármálafyrirtækja sendu frá sér merkilega fréttatilkynningu í vikunni þar sem þau viðurkenna hversu miklu þau reyndu að stela frá heimilum landsins með gengistryggðum lánum sem svo voru dæmd ólögleg. Það eru a.m.k. 120 milljarðar kr. Reyndar held ég að talan sé enn hærri enda veita þeir endurútreikningar sem Alþingi setti lög um eftir forskrift Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins mörgum enga leiðréttingu. Fjármálafyrirtækin fengu því að hirða stóran hluta ránsfengsins með sérstöku leyfi Alþingis Íslendinga. Því miður hefur mér fundist þessi ríkisstjórn vinna einna helst fyrir fjármálakerfið, ekki heimilin og ekki smærri fyrirtæki.

Hér er að spretta upp ný forréttindastétt bankamanna og innheimtulögfræðinga. Sú stétt er á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar en á kostnað íslensks samfélags.

Forseti. Kerfið á að vera fyrir fólkið, ekki öfugt. Kerfi sem mergsýgur þjóðfélagið og gerir þegnana að skuldaþrælum má mín vegna falla að nýju. Í hruni felast tækifæri til uppstokkunar og nýsköpunar. Vissulega er okkur þrengri stakkur sniðinn en við höfum líka meira frelsi til að móta samfélagið í þeirri mynd sem við viljum sjá. Forsenda þess er að tryggja að þau spillingaröfl sem hér hafa ráðið ríkjum undanfarna áratugi komist ekki að borðinu. Það þarf að styrkja lagarammann og stunda í raun og veru opna og gegnsæja stjórnsýslu. Ekkert af þessu hefur gengið eftir, því miður.