139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:28]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að þakka þingstjórninni fyrir að hefja hauststörfin á yfirferð yfir stöðuna í atvinnu- og efnahagsmálum. Skýrsla forsætisráðherra og umræðurnar í kjölfarið hafa verið um margt fróðlegar og varpað ljósi á stöðuna í þróun hagvaxtar, kaupmáttar, atvinnuleysis og þeim aðgerðum sem gripið er til til að auka enn og örva hagvöxt og ná nýjum dampi í efnahagslífið eftir að stöðugleika hefur verið náð og böndum komið á ríkisfjármálin.

Forsætisráðherra drap á margar framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar og ef allt gengur eftir eru 7 þús. ný störf í augsýn á næstu missirum. Auðvitað er sumt af því enn þá fuglar í skógi en ekki störf í hendi og þess vegna þarf allt að leggjast á eitt til að það gangi eftir.

Ég ætla að beina sjónum sérstaklega að stöðunni á Suðurnesjunum sem er um margt sérstök. Meðan atvinnuleysið á landsvísu er í kringum 6% er atvinnuleysið suður með sjó, á Reykjanesskaganum, 12% núna í sumar og fer upp í 14–15% yfir vetrartímann. Það á sér að sjálfsögðu margvíslegar ástæður, þá stærstu og mestu að varnarliðið fór fyrir nokkrum árum og 800–900 störf hurfu á einu bretti. Heimamenn og aðrir í samstarfi við þá lögðu allan þunga á að koma upp stórum og öflugum vinnustað til mótvægis við það gríðarlega áfall sem svæðið varð fyrir í atvinnulegu og félagslegu tilliti þegar herinn fór burt í einu vetfangi.

Um leið opnuðust mörg tækifæri til að nýta 5 þús. manna þorpið á Vallarheiðinni. Það tekur þó mörg ár. Þar er margt gott að gerast eins og skólinn Keilir og ýmislegt annað sem mætti telja upp. Ýmsar vörður hafa verið á leiðinni og margt hefur tafið fyrirhugaðar framkvæmdir suður frá sem ekki var fyrirséð eða á valdi stjórnvalda að bregðast við eða stýra atburðarás. Þar skipta langmestu máli annars vegar erfiðleikar Orkuveitunnar við að koma Hverahlíðarvirkjun á fót sem átti að skaffa stóran hluta raforku til gagnavers, álversins í Helguvík og kísilverksmiðjunnar og hins vegar, sem er stærra mál en vonandi sér fyrir endann á í september með gerðardómi í Svíþjóð, deilur HS Orku og Norðuráls um efndir á samningi vegna álversins í Helguvík og orkuöflunar og sköffunar til fyrsta áfanga þar og hvernig samningurinn frá 2008 skyldi uppfærður. Það var mikið áfall þegar ekki náðust samningar og það þrátefli jókst og stigmagnaðist sem endaði svo í gerðardómi sem átti að ganga í júlí en fékk leyfi til að taka sér frest fram í september. Hann mun ganga núna í lok mánaðarins. Það hafði einnig í för með sér að hik kom á aðra, eins og Landsvirkjun og lífeyrissjóði sem hafa sýnt áhuga á að yfirtaka eða fara í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur um að reisa Hverahlíðarvirkjun til að skaffa orkuna þannig að framkvæmdir geti farið á fullt við kísilverksmiðjuna, gagnaverið og álverið í Helguvík. Menn bíða eftir því að gerðardómurinn gangi.

Landsvirkjun á ónýtta orku í kerfi sínu sem vonandi takast samningar um á milli hennar og Norðurálsmanna þannig að framkvæmdir fari af stað. Eins og staðan er núna er fjöldinn án atvinnu suður frá í kringum 1.200 manns en áætlaður fjöldi starfa í Helguvík gæti orðið um 800 fljótlega eftir að framkvæmdir fara af stað, 1.400 ári síðar og mest í kringum 1.600.

Það er margt fleira en það í pípunum suður frá. Þrír fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir á liðnum missirum um orkunýtingarverkefni á Reykjanesskaganum. Þeir bera umfram allt annað vitni um þá áherslu sem lögð er á að ná utan um það ófremdarástand í atvinnu- og félagsmálum sem fylgir 12–14% atvinnuleysi. Eins og ég sagði áðan á það sér margvíslegar skýringar og það er erfitt að ná utan um vandann og leysa á einu bretti.

Auðvitað hefur aðgerð eins og að opna framhaldsskólana fyrir alla 25 ára og yngri sem uppfylla tiltekin skilyrði mikil og jákvæð áhrif, sem og ýmiss konar úrræði í atvinnumálum og menntamálum. Þarna er menntunarstigið tiltölulega lágt. Það þarf að bregðast við því og byggja upp innviðina og grunninn en gríðarlegu máli skiptir að koma af stað stórum og öflugum verkefnum.

Þegar sveitarfélögin seldu frá sér yfirráðin yfir HS Orku misstu þau um leið tökin á fyrirætlunum þess félags um orkunýtingu. Nýir eigendur Magma höfðu áhuga á að selja fleiri en einum aðila orku og þrátefli varð. Deilurnar um orkusölusamningana fóru illu heilli af stað og hafa því miður tafið um mörg missiri uppbyggingu og verðmæta- og atvinnusköpun á þessu svæði þar sem neyðin í atvinnumálum er langmest.

Miklu máli skiptir að rammaáætlun er komin fram. Við verðum að vanda okkur við það á næstu mánuðum að missa umræður um hana ekki í flokkspólitískt þras, heldur halda henni á faglegum forsendum, halda rammaáætluninni í faglegum farvegi. Þegar umsagnarferli um hana lýkur eftir rúmlega tvo mánuði verður hún að fá fara hratt í gegnum þingið og verða til þess að margir orkuöflunarkostir fari af stað. Við sáum hvað það skipti miklu máli þegar Búðarháls og stækkunin í Straumsvík fóru á fleygiferð á þessu ári, mörg hundruð störf í kringum það, og birti okkur þar hvað gæti gerst ef þráteflið leystist á milli HS Orku og Norðuráls og lífeyrissjóðir og Landsvirkjun kæmu inn í Hverahlíðarvirkjun. Álverið skiptir máli, líka kísilverksmiðjan sem tafðist um nokkra mánuði út af fjármögnunarerfiðleikum. Nú er búið að skrifa undir alla samninga. Talið er að það verkefni fari af stað 15. október og framkvæmdir við gagnaverið uppi á Vallarheiði eru aftur hafnar. Vonir standa til að stórnotandi hafi komið þar inn þannig að það geti farið á fleygiferð.

Margt gott hefur verið gert og og búið er að ná utan um ástandið en eðlilega er margt ógert enn. Við þurfum að beina sjónum okkar sérstaklega að neyðarsvæðum eins og Reykjanesinu. Eitt af því sem við, allir tíu þingmenn Suðurkjördæmis, náðum samstöðu um var að flytja Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar. Þannig mundi ríkisvaldið sýna í verki stuðning við eflingu atvinnulífsins þar suður frá og gera Gæsluna um leið að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Þá um leið fengi Gæslan aðstöðu (Forseti hringir.) til að sameina alla sína starfsemi á einum stað. (Forseti hringir.) Þetta mál liggur í allsherjarnefnd og gæti verið afgreitt á þinginu ef vilji stæði til. (Gripið fram í.)