139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum munnlega skýrslu hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í efnahags- og atvinnumálum.

Ég vil taka það fram í upphafi að ég hef þá trú að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir telji að allt það sem þeir eru að gera sé til hagsbóta fyrir land og lýð. Ég er hins vegar ósammála nálgun þeirra á viðfangsefnið efnahagslíf og atvinnumál. Þess vegna er ég ekki sammála þeim niðurstöðum sem bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa komist að í þessari umræðu. Ég tel að skattstefna ríkisstjórnarinnar sé röng og að með þeirri skattstefnu sé verið að draga máttinn úr atvinnulífinu og fjárfestingum í þessu landi. Ég held að fjölskyldurnar séu ekki á sama máli og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að hér gangi allt hinn góða veg.

Mér finnst stundum eins og ríkisstjórnin sé ekki í takt við það sem er að gerast í samfélaginu. Áhrifamenn í atvinnulífinu segja að hér ríki kyrrstaða á flestum sviðum. Þó má taka fram, eins og hæstv. iðnaðarráðherra gerði, að ferðamennskan hefur blómstrað í landinu á þessu ári. Það er vel og vonandi verður svo áfram. Engu að síður höfum við tapað 20 þús. störfum á þessum tíma. Fólk hefur flúið land og atvinnuleysið er gífurlegt. Af hverju er það svo? Er það vegna ríkisstjórnarinnar? Ég tel svo vera vegna þess að ákvörðunarfælni hennar og ósætti innan hennar gerir það einfaldlega að verkum að verkefni fara ekki af stað. Skattstefnan er atvinnulífinu í óhag, hún ætti að vera það umhverfi sem laðar hér að fyrirtæki til fjárfestinga, en hún gerir það ekki. Hvernig finna fjölskyldur í landinu fyrir því ástandi sem er núna, ekki því sem við sjáum í náinni framtíð? Hvernig finna fjölskyldurnar fyrir því núna? Þær finna fyrir því vegna þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur fallið um tugi prósenta og núna, með nýgerða kjarasamninga, er enn þá einu sinni talað um þá gömlu lummu að þeir séu verðbólguhvetjandi.

Hæstv. forseti. Verðbólgan núna er ekki orðin til vegna athafna og þenslu. Hún er hér vegna skorts á fjárfestingum og hagvexti og það er ekki kjarasamningum að kenna. Fólkið í landinu hafði væntingar um að með réttum ákvörðunum um framkvæmdir mætti koma hagvexti af stað en fólkið í landinu verður þess vart að ríkisstjórnin þvælist fyrir verkefnum. Komi aðilar sem vilja fjárfesta eru þeir tortryggðir sem einstaklingar sem og fjármagn þeirra. Þar að auki, frú forseti, hefur hringlið í skattstefnu ríkisstjórnarinnar og hótanir þar að lútandi fælingaráhrif á þá sem þó eru að velta fyrir sér fjárfestingum, hvort heldur þeir eru Íslendingar eða erlendir fjárfestar.

Fólkið í landinu finnur fyrir því að vextir fara hækkandi og fólkið í landinu finnur fyrir gjaldeyrishöftum. Fólkið í landinu finnur fyrir skuldsetningunni vegna þess forsendubrests sem varð í hagkerfinu við hrunið og fjölskyldum í landinu finnst ganga allt of hægt að rétta við skuldastöðu fólks og fyrirtækja.

Hæstv. forseti. Fólkið er ósátt við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Ýmislegt hefur áunnist og það er vel. Það sem að framan er nefnt kemur við flestar fjölskyldur í landinu. Og vitið þið hvað, þá skiptir ekki máli hvaða flokk fjölskyldur í landinu hafa kosið nú eða munu kjósa síðar. Við stöndum á tímamótum, tvö ár eru liðin af þessu kjörtímabili og tvö ár eru eftir. Við Íslendingar stöndum á tímamótum þess eðlis að vita hvers konar þjóðfélagsgerð við viljum hafa á Íslandi til framtíðar. Helsta krafa fjölskyldna í þessu landi er að geta aukið hag sinn, eflt velferð og menntun, skapað börnum sínum sem best skilyrði til hugar og handa, að sambærilegt sé við það besta sem gerist í öðrum samfélögum. Þeirri kröfu, frú forseti, má mæta með því að fara leið uppbyggingar og hagvaxtar, leið sem leggur grunn að góðum kjörum fólks og fyrirtækja og getur jafnframt staðið undir öflugu velferðar-, mennta- og menningarsamfélagi. Það er ekki leið núverandi ríkisstjórnar, því er miður fyrir land og þjóð.