139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:54]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar við horfum til stöðu efnahagsmála nú er efst í huga að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er nýlega lokið. Það samstarf reyndist okkur afskaplega vel. Það skapaði góðan ramma utan um efnahagsstjórnina og veitti okkur nauðsynlegan aga til að ná markmiðum um samstillta hagstjórn sem hefur reynst erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að ná um áratugaskeið.

Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gaf okkur líka færi á því að verja velferðina. Lánafyrirgreiðsla sjóðsins kom í veg fyrir að við þyrftum að skera eins mikið niður í ríkisútgjöldum og við ella hefðum þurft og því varð kreppan ekki eins djúp og velferðartjónið ekki eins mikið og það ella hefði orðið.

Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var okkur líka mikilvægt til að breyta viðhorfi til lækkunar skulda á Íslandi. Öfugt við það sem nokkrir hafa haldið fram upp á síðkastið þá var það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem veitti okkur viðspyrnu og fótfestu til að kalla eftir breytingum á viðhorf til lækkunar skulda. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hingað fyrst og samstarf við hann hófst var engin greiðsluaðlögunarlöggjöf til á Íslandi og engin löggjöf til um lækkun skulda fyrirtækja eða heimila. Allir þurftu að fara gjaldþrotaleiðina með tilheyrandi kostnaði og erfiðleikum. Það var vegna ráðgjafar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við náðum fótfestu til að breyta þessu regluumhverfi, fyrst með löggjöf um greiðsluaðlögun, síðan með löggjöf um sértæka skuldaaðlögun og öllum þeim löggjafarumbótum sem við höfum farið í á síðustu missirum sem hafa auðveldað lækkun skuldastöðu heimila og fyrirtækja niður í það sem greiðslugeta þeirra stendur undir. Þannig var það samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hjálpaði okkur við skuldaaðlögunina. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur barist gegn því að almenningur í landinu, skattborgarar, öxluðu byrðar vegna skuldsetningar annarra en sjóðurinn hefur lagt mikla áherslu á að fjármálafyrirtækin sjálf lækkuðu skuldir heimila og fyrirtækja niður í það sem greiðslugeta stæði undir.

Skuldaúrvinnsla fyrirtækjanna hefur verið gerð nokkuð að umtalsefni hér í umræðunni. Hún hefur gengið mjög vel eftir að við tókum föstum tökum á henni með bönkunum fyrir ári síðan og horfur eru á að allir stóru bankarnir nái að ljúka skuldaúrvinnslu fyrirtækjanna fyrir árslok að mestöllu leyti. Við sjáum þess þegar stað í auknum umsvifum í hagkerfinu. Það eru hins vegar veikleikar í íslensku efnahagslífi sem hafa alltaf verið til staðar og við sjáum betur núna þegar við höfum greitt úr bráðavandanum. Það er skortur á samkeppni í mjög mörgum greinum. Margar greinar búa við þær aðstæður að fákeppni er þar ráðandi, vátryggingamarkaðurinn, fjármálamarkaðurinn, olíumarkaðurinn o.s.frv. Þetta þekkjum við og markmiðið er að brjóta upp þessa einokunarstöðu.

Með sama hætti eru fjölmargar greinar verndaðar fyrir samkeppni vegna ýmiss konar hafta sem er að finna í lögum. Stærstur hluti innlenda matvælaiðnaðarins í landbúnaðarframleiðslu er gott dæmi um það. Við þurfum að auka samkeppni í hverri grein til að auka verðmætasköpun í landinu.

Við búum vissulega við sterkar greinar í útflutningi, t.d. í sjávarútvegi og álframleiðslu, og þaðan kemur meira en helmingur útflutningsteknanna. En þær greinar eiga það sammerkt að lifa í sjálfstæðu hagkerfi báðar tvær og vera ótengdar sveiflum hinnar íslensku krónu. Hvað segir það okkur um skynsemi íslensku krónunnar sem framtíðargjaldmiðils þjóðarinnar? Lykilútflutningsgreinar þjóðarinnar byggja á öðru en íslenskri krónu. Það er auðvitað áfellisdómur yfir stöðunni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs að þrátt fyrir að við höfum nú í þrjú ár verið með raungengi um 20% undir meðaltalsraungengi hefur engin raunaukning orðið í útflutningi. Það segir okkur að miklir veikleikar eru í íslensku efnahagslífi og samkeppnishæfni skortir.

Það eru forsendur fyrir að auka nýsköpunargetu hagkerfisins og samkeppnishæfni þess, draga úr einhæfni atvinnulífsins og fjölga stoðunum sem við stöndum á. Við höfum ráðist í átak til að auka á menntun vegna þess að hún er nauðsynleg forsenda þess að hugmyndafyrirtækin geti vaxið, þau geti nýtt sér tækifærin því að þau skortir í dag starfsfólk með menntun til að geta vaxið hér á landi. Við þurfum að brjóta upp stöðnun og auka samkeppni og við þurfum að senda skýr skilaboð um að Ísland er opið fyrir erlendri fjárfestingu og það skal ég alveg hreinskilnislega segja að þar skuldar núverandi ríkisstjórn þjóðinni skýr svör. Við þurfum að taka það algerlega skýrt fram að ákvæði stjórnarsáttmálans um að við sækjumst eftir erlendri fjárfestingu sé annað en orðin tóm. Ísland er opið fyrir erlendri fjárfestingu og á að vera það.

Við þurfum, virðulegi forseti, að sækja fram. Við þurfum að takast á við kyrrstöðuna og varðstöðu um sérhagsmuni í hverri grein. Þar þurfa allir flokkar að líta í eigin barm. Við höfum aftur og aftur orðið vitni að því í þessum sal að menn hafa tekið sérhagsmuni einstakra atvinnugreina og einstakra hópa fram yfir þjóðarhagsmuni, að aukinni samkeppni, að auknum krafti í atvinnulífinu, að aukinni útflutningssókn. Við skulum sameinast um að sækja fram fyrir kraftmikið íslenskt athafnalíf sem er alþjóðavætt, er opið fyrir nýjungum, getur tileinkað sér nýjungar og sótt fram af krafti og skapað ný störf okkur öllum til heilla.