139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Að þjóð og þing séu sammála um þá stefnu sem er í gangi, sagði hæstv. forsætisráðherra, og við skulum sameinast um að tala ekki efnahags- og atvinnumál niður, framtíðin er björt. Þetta var inntakið í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hún var ekki sannfærandi.

Í raun staðfesti ræðan það að hún gerir sér ekki grein fyrir þeim alvarlegu vandamálum sem steðja að, nema hún tali þá gegn betri vitund. Hvort sem er staðfestir það að hún veldur ekki forustuhlutverkinu, hún ræður ekki við verkefnið sem hún hefur tekið að sér.

Eftir efnahagshrunið var sagt að við ættum tækifæri umfram aðrar þjóðir til öflugrar viðreisnar og það er rétt. Tækifærin eru til staðar en þau eru ekki nýtt. Baráttan fyrir nýtingu orkuauðlindanna hefur staðið í meira en 50 ár. Það eru sömu öfl í samfélaginu sem nú berjast gegn eðlilegri nýtingu orkunnar og hafa alla tíð verið á móti uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi. Sem betur fer fyrir íslenska þjóð hefur baráttan í þágu skynsamlegrar nýtingu orkuauðlindanna unnist og það hefur byggt upp velferðarsamfélagið sem við byggjum í dag.

Í raun er þetta barátta um þjóðfélagsgerð, hvernig samfélag við viljum byggja til framtíðar. Grunnur að velferð okkar liggur í nýtingu náttúruauðlinda landsins og ég er sannfærður um að þegar ríkisstjórnin sem nú situr hefur vikið af vegi, mun þeirri stefnu sem áður hefur verið fylgt í þessum málum verða fylgt þegar fram líða stundir.

Það er blóðugt til þess að vita að í raun er það aðeins fámennur hópur þingmanna sem heldur þinginu í gíslingu í þessum málum. Afturhaldsöfl sem njóta mjög lítils stuðnings meðal þjóðarinnar en hafa allt of mikil völd á þingi. Hver dagur, vika eða mánuður sem líður er þjóðinni dýrkeyptur tími og hún er mikil ábyrgð þeirra stjórnarþingmanna sem standa ekki við stóru orðin í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina. Það er til lítils að standa og hrópa á torgum en vera svo smalað til þings með skottið á milli lappanna til að viðhalda stuðningi við stöðnun í atvinnulífinu.

Mikið hefur farið fyrir fögrum fyrirheitum stjórnvalda, yfirlýsingar verið gefnar, m.a. á Suðurnesjum og í Þingeyjarsýslu, stöðugleikasáttmáli gerður við aðila vinnumarkaðarins og boðaðar aðgerðir í tengslum við kjarasamninga, svo fátt eitt sé nefnt. En efndirnar láta á sér standa og þolinmæðin er brostin. Hörð gagnrýni forustu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins er til marks um þá alvarlegu stöðu sem uppi er. Nú þremur árum eftir efnahagshrunið er staðan ekki í neinu samræmi við loforð og áætlanir ríkisstjórnarinnar og forustumanna hennar.

Atvinnuleysi er mesta böl hverrar þjóðar. Hér hafa tapast yfir 20 þús. störf (Gripið fram í.) og atvinnuleysið er því miklu meira en um er talað og í þeim tölum sem stjórnarliðar kjósa að nefna til leiks í þessari umræðu. Það er alvarlegt þegar fólk hefur misst trú á landið sitt eins og stöðugur landflótti sýnir okkur fram á að er staðreyndin á Íslandi í dag. Kaupmáttur hefur rýrnað mikið. Fölskum kaupmætti hefur þó verið haldið uppi þegar almenningur gengur hratt á sparifé sitt. Verðbólga er tekin að vaxa með tilheyrandi afleiðingum, kauphækkanir nýlegra kjarasamninga eru foknar út í veður og vind, lán heimila og fyrirtækja vaxa sem og vonleysið. Ofan á þetta dettur mönnum svo í hug að hækka stýrivexti þegar allir eru sammála um að aðgerðir sem hvetja til frekari fjárfestinga eru nauðsynlegar. Þær hafa ekki verið minni í 70 ár. Við þær aðstæður eru skattar hækkaðir og hafðar uppi hótanir um að lengra verði gengið í þá átt.

Samþykkt flokksráðs Vinstri grænna um frekari skattahækkanir er skýrt dæmi um hugmyndafátækt þess safnaðar. Ummæli hæstv. forsætisráðherra af því tilefni voru áhugaverð og hæstv. fjármálaráðherra þarf að svara því hvort hún hafði rétt fyrir sér þegar hún sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af því að hann tæki mark á samþykktum grasrótarinnar. Það væri reyndar ekkert nýtt ef svo væri, í þeim flokki.

Hagvöxtur er í engu samræmi við það sem efnt var til með stöðugleikasáttmálanum. Með réttum ákvörðunum gæti hagvöxtur verið kominn í 4–5% sem þýddi að atvinnuleysi væri farið að stórminnka. Og ríkisstjórnin getur ekki kennt öðrum en sjálfri sér um þá staðreynd. Í stað þess að beita sér fyrir aukinni beinni erlendri fjárfestingu í landinu hefur hún beinlínis stuðlað að því að fæla fjárfesta burtu. Frumvörp ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál afhjúpa algerlega vanþekkingu hennar á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

Ríkisstjórnarsamstarfið byggist orðið á hræðslubandalagi. Það birtist þjóðinni í hverri viku og hjákátlegt er að sjá forsætisráðherra koma fram og segja að ástandið sé gott á því heimili. Þessu verður að linna, virðulegi forseti, og ég kalla til ábyrgðar þá þingmenn sem styðja þessa vitleysu. Það er ekki öllu fórnandi á altari aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Í húfi eru of miklir hagsmunir þjóðarinnar.