139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég var svo bergnuminn við ræðu hæstv. fjármálaráðherra að mér varð það á að kalla fram í utan úr sal og hrósa honum eilítið. Ég biðst velvirðingar á því, það mun ekki koma fyrir aftur. Ástæðan var einfaldlega sú að hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi eitt. Hann viðurkenndi að verðbólgumarkmiðin hefðu einfaldlega ekki náðst. Hann viðurkenndi reyndar ekkert annað en verðbólgumarkmiðin eru vissulega stór hluti. Þetta hefur áhrif á þúsundir heimila í landinu.

Af hverju viðurkennir ríkisstjórnin ekki að markmiðin sem hún sjálf setti sér hafa ekki náðst? Af hverju viðurkennir hún ekki að á þessu ári, árið 2011, átti hagvöxtur að vera um 4,4%? Nú hrósar hún sjálfri sér fyrir það að á næstu tveimur árum eigi hagvöxtur að vera rétt um 2,7%, undir 2% á næsta ári. Það er ekki góður árangur, virðulegi forseti.

Af hverju kemur ríkisstjórnin ekki fram og þakkar stjórnarandstöðunni fyrir að skuldatryggingarálagið skuli vera lægra? Við skulum nefnilega rifja það upp að fyrir ekki svo löngu síðan átti skuldatryggingarálagið að hækka ef við samþykktum ekki Icesave með þeim skuldaklafa sem þjóðin átti að taka á sig. Gæti ástæðan fyrir því að nú er hallinn 60 milljörðum minni en áður var talið verið einfaldlega sú að við skuldum miklu minna en við hefðum gert ef við hefðum tekið á okkur Icesave? Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hafði rangt fyrir sér og ég tel að hún hafi rangt fyrir sér með svo margt annað. Atvinnuleysið er gríðarlegt, tæplega 7%. Það er ekkert til að hrósa sér af, en af hverju þakka menn ekki krónunni fyrir? Ástæðan fyrir því að útflutningsfyrirtækin eru sterk eru einfaldlega vegna þess að við erum með krónu og gjaldmiðil sem getur aðlagað sig að efnahagsáföllum. Við höfum gjaldmiðil sem margar þjóðir Evrópusambandsins mundu svo sannarlega vilja hafa, nú þegar þrengir að. En hver skyldi versti árangur ríkisstjórnarinnar vera? Það stefnir í nýtt Íslandsmet gjaldþrota, 55% aukningu frá því í fyrra. 26 þúsund manns eru í alvarlegum vanskilum. Ég tel að þessi vandi sem ríkisstjórnin kýs að líta fram hjá sé meginástæða fyrir því að við náum ekki upp hagvexti, hann er fyrst og fremst ástæða þess að við komum ekki atvinnulífinu af stað. Sátt í samfélaginu mun einfaldlega aldrei nást fyrr en við höfum tekið á þeim vanda.

Hér voru sett neyðarlög strax í kjölfar bankahrunsins. Það er einhver stærsta ákvörðun sem Alþingi Íslendinga hefur tekið og gerði að verkum að þeim ríku sem áttu peninga í banka var bjargað, hinum var látið blæða. Í dag er gjá milli skuldsettra heimila, atvinnulausra og þeirra sem eiga eignir. Ef ekkert verður aðhafst mun nálgast sá tími að setja verður ný neyðarlög. (Forseti hringir.) Neyðin kraumar í samfélaginu og hana verður að slökkva með einum eða öðrum hætti, hvort sem það verður gert með nýjum neyðarlögum eða á annan hátt.