139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu frá félags- og tryggingamálanefnd við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

Varðandi 5. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað orðanna „til 30. júní 2011“ í 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum komi: frá 20. júlí 2011 til og með 31. desember 2011.

Varðandi 6. gr. er lagt til að í stað orðanna „til 30. júní 2011“ í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum komi: frá 20. júlí 2011 til og með 31. desember 2011.

Eins og kunnugt er var full samstaða um þetta mál í nefndinni í vor og allir nefndarmenn gengu út frá því að málið yrði að lögum þá, enda hafði nefndin hraðað störfum sínum til að tryggja framkvæmd þess. Í ljósi þess að málið komst aldrei til afgreiðslu, eins og reyndar fleiri mál sem eðlilegt hefði verið að setja á dagskrá, vil ég leyfa mér að segja það, frú forseti, að við blasir að endurskoða þarf vinnulag í þinginu við endanlega afgreiðslu mála. Það hlýtur að vera sjálfsagt og eðlilegt vinnulag að öll 3. umr. um mál sem full samstaða er um og enginn ágreiningur, fari fram áður en hlé verður á þingi og ég tala nú ekki um mál sem eru bæði aðkallandi og áríðandi.

Hér bregst félags- og tryggingamálanefnd við þessari stöðu og tryggir lagalegan grundvöll fyrir áframhaldandi útgreiðslu hlutabóta. Það þarf vart að ítreka hversu mikilvægt er að þetta mál verði að lögum frá Alþingi hér í dag. Við fórum efnislega yfir málið í vor og ég tel ekki ástæðu til að gera það aftur nú og hef lokið máli mínu.