139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að við þurfum að gefa okkur tíma í þetta. Við á löggjafarsamkundunni ætlum okkur varla að taka einfaldlega við tilmælum úr ráðuneytunum. Við samþykktum öll sem eitt ályktun þess efnis fyrir ári. Ekki má það vera þannig til framtíðar að þingmönnum líði hér eins og einn hv. þingmaður talaði um á sínum tíma, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, að við værum einhvers konar afgreiðsludömur. Við ætlum okkur ekki að láta hlutina vera þannig.

Stærsta atriðið um hlutaatvinnuleysisbæturnar er að mínu mati hvert hlutfallið eigi að vera. Hvað mætti atvinnurekandinn segja starfsmanninum upp miklu hlutfalli? Hvar eru mörkin nákvæmlega? Við höfum ekki farið af neinni nákvæmni í neina úttekt á því hvort við erum á réttri braut, hvort það ætti að vera varanlega svona eða hvort við séum komin yfir línuna. Þetta er verkefni vetrarins að mínu mati. Ég vona sannarlega að það týnist ekki í þeim fjölmörgu stóru verkefnum sem hin nýja velferðarnefnd, sem mun hafa gríðarlega mörg og fjölbreytt verkefni á sinni könnu, þarf að ráðast í.