139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:13]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd fyrir afar vönduð vinnubrögð í heildina og almennt varðandi þau mál sem þangað hafa komið, mikla samstöðu og mikinn vilja til að leita lausna og ná niðurstöðu. Það hefur einkennt starf nefndarinnar og ég tel ástæðu til að það komi fram.

Þess vegna var mjög miður að mál sem komið var til lokaafgreiðslu í vor og var tilbúið til atkvæðagreiðslu í þinginu skyldi ekki klárað. Ég þakka nefndinni fyrir að hjálpa okkur að ljúka því núna þannig að þeir sem hafa fengið greiddar svokallaðar hlutaatvinnuleysisbætur geti fengið greitt samkvæmt lögum frá og með mánaðamótunum núna.

Athugasemdir komu hérna fram sem ég vil taka undir í sambandi við það hvernig lagasetning fer almennt fram, þ.e. að við þurfum auðvitað að vanda okkur. Það er misjafnt hverju er verið að breyta eða hvað verið er að taka upp. Í sumum tilfellum erum við kannski að breyta dagsetningum eða framlengja eitthvað til ákveðins tíma og það er eðlismunur á því eða hvort við erum að grunnvinna málin.

Ég held að við deilum þeirri skoðun að það þurfi að skoða öll mál mjög vel. Í umræðunni er mjög ánægjulegt að heyra, og ég tek undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og hv. þm. Pétri H. Blöndal, að mikil þörf sé á því að skoða hlutaatvinnuleysisbæturnar. Við höfum verið að ræða það í ráðuneytinu hver framkvæmdin hefur verið, hver sé reynslan. Er það rétt viðmið að vera með 30%? Það var upphaflega lægra. Á að vera eitthvert sólarlagsákvæði og miða við ákveðinn tilgreindan tíma þannig að menn geti ekki búið við það langtímum saman að vera í hlutaatvinnuleysi á móti vinnu o.s.frv.?

Ég held að það væri einmitt ágætt, af því að við erum að gera tillögu um að framlengja bara til áramóta, að sú vinna fari af stað. Auðvitað verðum við að bíða eftir þessu í nýrri velferðarnefnd en það sé þá unnið með ráðuneytinu og viðkomandi nefnd og það skoðað hvernig framhaldið eigi að vera.

Það hefur líka komið fram í umræðunni að umtalsverðir peningar eru þarna í húfi. Verið er að fjalla um verulegar upphæðir og það skiptir líka máli bæði fyrir ríkissjóð en ekki síður fyrir þá sem fá þessar bætur. Það er líka annað í frumvarpinu sem er ágætt að lyfta upp hér að heimild er til þess að borga út desemberuppbót á atvinnuleysisbætur, það er inni í frumvarpinu sem er auðvitað mikilvægt til að gæta samræmis við aðra þá sem eru á bótum. Þetta er heimildarákvæði en skiptir máli vegna þess að sumir hafa því miður orðið að búa við langvarandi atvinnuleysi.

Sambærilegt fyrirkomulag, af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi þetta með hlutaatvinnuleysisbæturnar sem inngrip til að hjálpa atvinnulífinu, þá eru í rauninni greiðslur til fyrirtækja vegna vinnslustöðvunar í sjávarútvegi, sem er mjög athyglisvert. Til að geta haldið mönnum á launum, til að þurfa ekki að segja þeim upp, hafa menn fengið greiðslur. Það þarf líka að fara yfir þá framkvæmd einfaldlega vegna þess að við sjáum að ákveðin fyrirtæki sem eru mjög stöndug fá bætur jafnvel reglulega í ástandi eins og er í dag. Spurningin er þá hver á að bera það? Er eðlilegt að þeir sjóðir, sem eru að vísu borgaðir mikið til af atvinnulífinu, við skulum gera okkur grein fyrir því, beri það? Þetta eru þá álögur á atvinnulífið á meðan verið er að borga atvinnuleysisbætur eða hlutaatvinnuleysisbætur.

Ég vil ítreka þakkir til nefndarinnar og til þingsins fyrir að vera með þetta fyrst á dagskrá og treysti á að málið verði afgreitt í dag, það skiptir miklu máli, það var komið tilbúið til atkvæðagreiðslu, þannig að hægt verði að standa við það að greiða út þessar bætur núna, akkúrat þessa helgi.