139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég þarf þá einfaldlega að kanna það betur hjá þeim aðilum sem hafa leitað til mín varðandi þessa heimild í lögunum um atvinnuleysisbæturnar, hvort erindi þeirra hafi ekki skilað sér alla leið. En þar er um að ræða aðila í matvælaframleiðslu sem lenda í því að hráefnisskortur verður til þess að stöðva þurfi starfsemi og þess vegna séu starfsmenn ráðnir inn til skamms tíma í senn en ekki í fulla fasta stöðu. Þannig hófst sú umræða og ég taldi að hún væri komin inn í ráðuneytið.

Að öðru leyti vil ég einfaldlega hvetja hæstv. ráðherra til dáða í því að afla upplýsinga til að greiða fyrir því að endurskoðun og yfirferð yfir hugmyndafræðina varðandi hlutaatvinnuleysisbæturnar gleymist ekki við þessar miklu breytingar sem verða á nefndakerfi þingsins og ég vonast svo sannarlega til þess að sú vinna muni skila árangri.