139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta mál var eitt af um 25 málum sem lentu milli skips og bryggju, eins og hinn skipstjóramenntaði þingmaður nefnir það. Það er alveg rétt. Hvort það gleymdist — ég verð að játa, virðulegi forseti, að ég kann ekki þá skýringu hvers vegna þessi mál biðu nema hún sé sú að umræðan um fiskveiðistjórnarfrumvarpið tók óheyrilega langan tíma og ruddi ýmsu öðru burt vegna þess að við ætluðum að hætta á ákveðnum tíma. Ég veit það ekki. Það var óskað eftir því að kalla saman fund í iðnaðarnefnd til að ræða þetta. Það var gert við fyrsta tækifæri sem leyfilegt var samkvæmt þingsköpum, eða 11. ágúst. Málið skýrðist ágætlega. Þar komu orkumálastjóri og fulltrúar frá ráðuneytinu sem útskýrðu að þetta hefði ekki alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ekki var búið að tilkynna útboðið til ESA. Nú er það búið. Lesa mátti úr þeim beiðnum sem komu m.a. við umræðu í nefndinni, plús náttúrlega að allir nefndarmenn úr öllum flokkum standa að nefndarálitinu og breytingartillögunum, að full samstaða væri um þetta mál. Við munum væntanlega klára 3. umr. og atkvæðagreiðslu í næstu viku. Aðalatriðið er að ráðuneytið hefur tilkynnt að útboðið sé í byrjun október. Við getum alveg fagnað því, en hvort einhver ágreiningur sé um málið milli stjórnarflokkanna get ég ekki merkt vegna þess að fulltrúar Vinstri grænna, sem hv. þingmaður nefnir, eru á nefndarálitinu án fyrirvara. Einu mennirnir sem eru með fyrirvara eru hv. flokksbræður hv. þingmanns.