139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[15:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að Norðmenn hafi ekkert einkaleyfi á því að vera umhverfisverndarsinnar. Ég held að flestir bændur á Íslandi, þeir sem ég þekki, séu í reynd mjög umhverfisverndarsinnaðir og þeir vilji skila jörðum sínum eins og þeir tóku við þeim varðandi umhverfi. Það held ég að sé viðloðandi á Íslandi og hafi verið mjög lengi.

Það sem er athyglisvert og ég velti fyrir mér er hvort hv. umhverfisnefnd Alþingis hafi fengið öll þessi mál til umsagnar, hvort hún hafi rætt olíuvinnslu á þessu svæði og hvort menn hafi þá farið í gegnum alla þessa ferla. Mig minnir að hv. þingmaður sitji í nefndinni. Hann getur þá svarað því hvort þar hafi til dæmis verið rætt um hvort það sé betra að fá álver með þeirri litlu koldíoxíðmengun sem henni fylgir, miðað við það sem er annars staðar, eða jarðefnavinnslu norður við Íshaf. Ætli nefndin hafi vegið og metið áhættuna af hvoru tveggja? Ég tel ekki spurningu að það sé miklu skynsamlegra að hafa álver á Íslandi en í Kína þegar maður horfir með augum umhverfisverndarsinna. Það hlýtur að vera stórhættulegt í augum umhverfisverndarsinna að auka olíuvinnslu á jörðunni því að olía sem ekki er unnin er heldur ekki brennd.