139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[15:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ál sem framleitt er á Íslandi verður ekki framleitt í Kína. Það álkíló fer út á heimsmarkaðinn og er notað í bíla og annars staðar sem er reyndar mjög umhverfisvænt af því að bílarnir léttast og brenna minna. Það hefur minnkað þörfina á því að Kínverjar framleiði ál. Þannig mundum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar í því að minnka mengun á jörðinni. Þetta finnst mér að hv. umhverfisnefnd ætti nú að ræða og jafnvel að líta á það sem skyldu Íslendinga að virkja sem allra mest.

Hv. þingmaður sagði að hv. umhverfisnefnd hefði ekki rætt um þær fyrirætlanir að bora eftir olíu norður í hafi. Það er alveg með ólíkindum. Ég hélt að menn vissu þetta almennt á Íslandi, að olíu sem kemur upp úr borholu er yfirleitt brennt. Eitthvað er notað í plast en yfirleitt er henni brennt. Þegar henni er brennt myndast koldíoxíð og það ekki í litlum mæli, heldur í mjög miklum mæli. Umhverfisnefnd sem ég geri ráð fyrir að hafi áhyggjur af hitnun jarðar vegna koldíoxíðmengunar eða aukningar koldíoxíðsins í loftinu ætti nú að ræða það mál. Þetta er grundvallaratriði sem mér finnst að nefndin ætti að ræða án þess að ég sé að stýra starfi hennar. Mér finnst samt undarlegt að þetta skuli ekki hafa verið rætt í hv. umhverfisnefnd.