139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Vel má gagnrýna umhverfisráðherra og aðra ráðherra þessarar ríkisstjórnar og reyndar hinna síðustu líka fyrir að vanda ekki nægilega til athugasemda með frumvörpum, einkum þegar þau fjalla um Evrópurétt eða alþjóðasamninga af þessu tagi vegna þess að þá láta lögfræðingarnir sem vinna fyrir ráðherrana sér oft nægja að skýra út fyrir þeim lögfræðingum sem þeir telja að séu helstu lesendur athugasemdanna hvernig sé í pottinn búið samkvæmt fræðunum en lýsa ekki frumvarpinu, árangri sem með því á að ná eða framförum sem með því verða, með nægilega skýrum hætti fyrir okkur sem ekki erum í skjóli af lögfræðigyðjunni.

Eins og ég sagði í framsöguræðu minni og nefndaráliti tel ég og við í meiri hlutanum eftir lestur þessarar skýrslu að það sé óárennilegt að bera saman nákvæmlega réttarstöðuna í þessu einstaka atriði heldur verði að taka tillit til hefðarinnar og ástandsins í hverju landi fyrir sig.

Meginmálið er þó þetta, að hér er um pólitíska ákvörðun að ræða í hverju ríki. Meiri hluti nefndarinnar hefur ákveðið að taka þessa pólitísku ákvörðun af margvíslegum orsökum, m.a. af virðingu fyrir einstaklingnum, viðhorfum hans, sannfæringu og rétti til þess að bera fram spurningar í þessu ríki sem er fámennara en flest önnur sem við höfum spurnir af. Það eigum við að takast á um en ekki það hvernig þetta er miðað við stöðuna í Færeyjum, Möltu, Grikklandi eða Armeníu.