139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil andæfa því að það sé sérstök ókurteisi við hæstv. umhverfisráðherra að fjalla um þetta í einu lagi því að ég man ekki betur en hann hafi gert það sjálfur í framsöguræðu sinni. Ég skal þó ekki fullyrða það. En það er alveg eðlilegt að gera það vegna þess að þessi tvö frumvörp hanga mjög nákvæmlega saman og væri a.m.k. jafnfáránlegt að ræða þau í tvennu lagi og í einu lagi.

Um síðari spurninguna er það að segja að sú skipan mála sem lögð er til í frumvarpinu, þó einkum eins og hún lítur út eftir að breytingartillögur okkar eru komnar fram, byggist á hefðum í úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál og hinni jákvæðu reynslu úr þeirri nefnd. Í raun og veru gerum við nefndina enn þá faglegri og sjálfstæðari. Nefndin er ekki dómstóll en hún gerir ráð fyrir því að menn hafi verulega menntun, það er rétt, og hafi yfirsýn yfir ákveðin fagsvið. Einkum er þar treyst á að formaðurinn viti lengra nefi sínu og ég sé ekki betur en að það sé algjörlega eðlilegt að gera ráð fyrir því.