139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Júlíussyni fyrir ágæta ræðu. Viðvörunarorð hans eru virkilega athyglisverð. Mig langar til að spyrja hann að því hvort fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. umhverfisnefnd hyggist flytja breytingartillögu við frumvarpið til þess að laga þá agnúa sem eru á málinu.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann að því hvort það sé ekki mismunun á Evrópska efnahagssvæðinu að gert sé skilyrði um að kærur séu skrifaðar á íslensku, hvort menn eigi ekki að geta skilað inn kærum á tungumáli sem er almennara þar.

Ég spyr jafnframt hvort viðkomandi ákvæði hafi tekið gildi. Mér skildist á máli hv. þingmanns að það hefði tekið gildi, einkum í Portúgal. Getum við, öll Evrópa og Kínverjar líka þá kært framkvæmdir í Portúgal? Ég man eftir því þegar ég keyrði einhvern tímann til Vínarborgar frá flugvellinum og þá sá ég tvær olíuhreinsistöðvar. Það finnst mér ekki við hæfi, herra forseti, að vera með olíuhreinsistöðvar alveg ofan í bænum. Það er þá spurning hvort ég ætti ekki að kæra svoleiðis skipulag ef Austurríkismenn eru búnir að uppfylla þessi skilyrði. Spurningin er því sú: Hvers vegna taka Íslendingar það upp sem aðrir gera ekki? Ég geri ekki ráð fyrir því að ég geti kært þessa framkvæmd í Austurríki.

Ég sé það strax í hendi mér að erlendir ferðamenn á Íslandi setjist niður og skrifi á smáblað þegar þeir bíða í flugstöðinni á leiðinni út og kæri ýmislegt sem fyrir augu þeirra bar hér, framkvæmdir sem eru í gangi, og hafi þannig áhrif á umhverfið á Íslandi.