139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[17:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram greiðum við nú á eftir atkvæði um nokkrar breytingartillögur við lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum, þ.e. olíuleit á Drekasvæði, eins og það hefur verið kallað. Þetta mál var afgreitt í iðnaðarnefnd í maí en stoppaði því miður þá og var ekki klárað en hefur verið hér til umræðu á fyrsta degi og er sem sagt komið til atkvæðagreiðslu við 2. umr.

Miðað við samþykkt þessa og eins og tilkynnt hefur verið mun útboð fara fram fyrsta mánudag í október, sem ég get ímyndað mér að sé 3. október, og tafir sem af þessu eru verða ekki skaðlegar fyrir okkur. Í dag eru einnig á dagskrá tvö skattalagafrumvörp hvað þetta varðar sem vonandi verða samþykkt líka, sem betur fer er samhljómur um þetta, og í framhaldi af útboðinu fáum við vonandi góða bjóðendur í olíuleit þar sem við getum vænst þess að finna mikil verðmæti.

Ég vil þakka öllum nefndarmönnum í iðnaðarnefnd fyrir mjög góða vinnu við þetta mál enda standa (Forseti hringir.) átta þingmenn af níu að nefndarálitinu.