139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér í dag höfum við rætt um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Ég er stundum í tengslum við kjósendur og þeir kvarta í síauknum mæli undan alls konar eftirliti. Bóndi nokkur kvartaði undan því að hann gæti ekki lengur byggt eða grafið sér kartöflugeymslu úti á túni, eins og var einu sinni tískan, nema fá til þess leyfi og fá verkfræðing til að hanna fyrirbærið sem var einu sinni bara hola grafin ofan í jörðina og tyrft yfir og þótti ágætis kartöflugeymsla. En nú er þetta orðin mikil framkvæmd og þarf að fara í alls konar mat og fá leyfi út um allt og kostar heilmikið vesen. Sömuleiðis ætlaði hann að gefa hluta af lóð sinni til vinar síns undir sumarbústað og það varð efni í heila ævisögu.

Það sem ég held að sé að gerast er að menn eru alltaf að setja meira og meira regluverk og meira og meira skipulag og afskipti hins opinbera af alls konar hegðun einstaklingsins verða meiri og meiri. Ég óttast að ef menn gæta ekki að sér muni þjóðfélagið hreinlega stöðvast. Ég held að uppdráttarsýki Evrópusambandsins sé einmitt af þeim sökum. Ég talaði einu sinni við þýska þingmenn og þeir sögðu mér að til þess að stofna lítið fyrirtæki í Þýskalandi þyrftu menn að fara til 28 aðila og til þess að stofna stærra fyrirtæki þyrftu þeir að fara til 52. Og allir vilja fá sín skjöl og sín leyfi og stimpla og ég veit ekki hvað.

Síðan rekast hlutirnir oft á. Það var gluggi í einhverri verksmiðju sem opinber aðili sagði að væri mjög merkilegur og mætti ekki eyðileggja en annar sagði að of lítið ljós kæmi inn um gluggann og þess vegna þyrfti að stækka hann. Aumingja framkvæmdaraðilinn gat hvorki rifið gluggann né haldið honum. Það er þetta sem ég held að menn þurfi að horfa til. Og menn þurfa líka alltaf að muna að það er alltaf sterkt atvinnulíf sem stendur undir öllu saman, velferðarkerfinu og líka umhverfismálum. Þegar atvinnulífið stendur illa er nefnilega ekki mikið verið að huga að umhverfismálum, hvergi í heiminum. Ég held t.d. að bóndi í Sómalíu þar sem er hungursneyð og dýrin hans eru við það að drepast úr þorsta hugsi ekki mikið um umhverfismál þegar hann beitir þeim á síðustu stráin.

Umhverfismál er því ákveðið velmegunarfyrirbæri og í sjálfu sér ágætt. Við þurfum að sjálfsögðu að huga að umhverfinu en menn þurfa að gæta sín á að ganga ekki svo langt í reglusetningu að hún hamli og stöðvi framkvæmdir. Nú er það nánast orðinn sjálfsagður hlutur að ekki sé hægt að fara í venjulegar framkvæmdir fyrr en eftir dúk og disk. Menn eru farnir að líta á það sem náttúrulögmál að það sé ekki hægt að fara í virkjanir fyrr en búið er að fara í þetta eða hitt matið o.s.frv. og svara þessum mótmælum og hinum mótmælunum. Þetta er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að finna hinn gullna meðalveg milli regluverksins og velferðarinnar annars vegar og svo regluverksins og umhverfisins hins vegar og undir því öllu stendur atvinnulífið.

Hér í dag hafa orðið miklar umræður um fullgildingu Árósasamningsins og það hvort menn geti kært ákveðna framkvæmd þó að þeir hafi enga hagsmuni af því. Ef menn túlka þetta mjög vítt hafa allir menn hagsmuni af því hvort einhvers staðar sé t.d. verið að brenna olíu af því að það er jú alheimsvandamál og jörðin er einn hnöttur, sem stundum virðist gleymast.

Ég tel að menn þurfi að stíga varlega til jarðar og passa sig á því að búa ekki til óþarfaumstang og óþarfatafir þannig að atvinnulífið bíði skaða af, nógu illa er það statt fyrir. Við stefnum að mínu mati í ákveðna kyrrstöðu sem er stórhættulegt, frú forseti, af því að þá fer allt unga fólkið til útlanda, oft það menntaða, og þjóðin bíður óbætanlegan skaða.

Mig langaði að ræða nefndarskipanina. Þarna er sett á laggirnar nefnd sem heitir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verkefni hennar verður óskaplega víðfeðmt og hún mjög valdamikil saman. Það er mjög sérkennilegt, frú forseti, hvernig nefndin er sett. Það er eins og það sé verið að búa til valdastöður. Fyrst er settur formaður. Það er væntanlega einhver sem er góður vinur ráðherrans og hann treystir vel og allt í lagi með það. Svo skal formaðurinn stinga upp á varaformanni og formaðurinn er auk þess forstöðumaður þessarar nefndar því að í henni á að vera heilmikil starfsemi og margir starfsmenn. Hann á sem sagt að velja sér varaformann sem er þá væntanlega góður vinur hans líka þannig að þarna myndast ákveðið par sem hefur sameiginlegar skoðanir, t.d. á atvinnulífi eða umhverfismálum eða einhverju svoleiðis, og þær skoðanir geta orðið mjög sterkar í aðra hvora áttina, sem er mjög neikvætt. Síðan þegar kemur að framkvæmdinni þá hefur forstöðumaður þessarar nefndar yfirumsjón með höndum og hann skipuleggur hvaða mál fari til hverrar undirnefndar sem í sitja þrír eða fimm nefndarmenn af sjö. Hann getur náttúrlega samkvæmt uppsetningu skipað varaformanninn, sem er góður vinur hans, og þeir tveir ráða þá í þriggja manna nefndunum þar sem þeir eru í meiri hluta. Það er ekki kveðið nákvæmlega á um það hverjir skuli sitja í þessum nefndum, það stendur bara að ef mál eru viðamikil eða fordæmisgefandi eigi þeir að vera fimm. Það er væntanlega mat forstöðumannsins án þess að það sé tekið beint fram. Það stendur að formaður ákveði hvernig nefndin er skipuð í hverju máli þannig að hann getur skipað sig og varaformanninn í öll mál. Þeir tveir ráða í þriggja manna nefndunum vegna þess að atkvæðamagn ræður. Þar með er því þannig fyrir komið að forstöðumaðurinn ræður í reynd öllu af því að maður reiknar með því að maðurinn sem hann stakk upp á sé hæfilega sammála honum í flestum málum. Þetta finnst mér ekki vera góð uppsetning, alls ekki. Ég hefði viljað sjá þetta á allt annan máta.

Svo er það þessi árátta að kalla eingöngu til háskólamenn, þ.e. þá sem hafa lokið prófi frá háskóla. Margir stunda nám og ljúka ekki prófi og margir eru ágætlega sjálfmenntaðir, ég minni á Bill Gates og ágæta menn sem hafa komið miklu til leiðar og hafa mikið vit á vissum hlutum og marga aðra sem hafa ekki endilega lokið háskólanámi. Mér finnst þetta því vera fullmikið dekur við háskólagráður. Þarna hefði mátt standa og kannski kemur breytingartillaga um að þar standi: „… eða svipaða menntun eða reynslu.“ Nú er ég sjálfur með háskólagráðu þannig að ég ætti svo sem að gleðjast yfir þessu ef ég væri að gæta hagsmuna þess hóps sem hefur lokið háskólagráðu.

Svo kem ég að því sem varðar kærur þar sem allir geta kært. Nú þekkjum við það á tölvuöld og með Twitter og Facebook og öllu slíku að það er verið að skipuleggja alls konar aðgerðir og mönnum koma alls konar hlutir við um allan heim með réttu eða röngu. Ég óttast að þessir miðlar verði notaðir til þess að skipuleggja mótstöðu gegn ákveðnum framkvæmdum, sem einhver er á móti sem kemur málið í raun ekkert við. Viðkomandi býr á Spáni eða einhvers staðar, Kína var nefnt hérna áðan. Síðan fá menn sent bréfið á íslensku og geta hugsanlega breytt einhverju ef þeir kunna íslensku og senda það svo í fjöldavís til Íslands og kaffæra framkvæmdaraðilann því að hann verður að svara þeim öllum. Það er heilmikil vinna að svara tvö þúsund bréfum, hvað þá 20 þúsund því að það þarf að gera skriflega og menn hafa andmælarétt o.s.frv. Ég held því að menn séu að bjóða upp á ansi mikla stjórnsýslu í þessu. Svo var gert ráð fyrir sekt ef kæran væri tilefnislaus, en það er búið að taka það út þannig að menn þurfa ekki einu sinni að borga sekt, það er þeim því algjörlega að kostnaðarlausu. Þetta óttast ég og ég óttast að það muni tefja feril mála enn meira en hingað til.

Þarna eru settir upp ágætistímarammar og í sjálfu sér getur maður verið sáttur við að ein nefnd taki á þessu öllu saman og fái þá ákveðna sérfræðiþekkingu o.fl. Fjöldamörg mál falla þarna undir og eru hér talin upp: Lax- og silungsveiði, fiskeldi, rannsókn og nýting á auðlindum í jörðu og raforkulög, vatnalög o.s.frv. Fjölmörg mál fara til þessarar nefndar og það er jákvætt að þar skuli myndast ákveðin sérþekking til að svara. Ég geri samt athugasemdir við skipan nefndarinnar og eins það að allir geti kært. Það eru helstu athugasemdir mínar við þetta frumvarp.

Fjármálaráðuneytið er með kostnaðarmat á þessu. Ég tel að það sé mjög óvíst hvað þetta komi til með að kosta. Ég held að það geti komið til með að kosta miklu meira, sérstaklega ef menn verða fyrir árás erlendis frá, fjöldaárás, þar sem allir geta kært. Eina sem það kostar er póstburðargjald fyrir bréfið til Íslands ef menn búa einhvers staðar lengst í burtu af því að kæran þarf að vera á skriflegu formi. Auðvitað gætu menn sent fjöldasendingu eða pakka til einhvers hér á landi sem gæti svo prentað allt út og sent ef undirskriftin er rafræn. Ég geri ráð fyrir að menn samþykki svoleiðis þó að það komi reyndar ekki fram.

Það sem ég geri kannski aðallega athugasemd við, frú forseti, og hef aldrei séð áður er að einhver fái stöðu samkvæmt lögum. Það stendur nefnilega í ákvæði til bráðabirgða að forstöðumanni úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál skuli boðið að taka við starfi forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum þessum með óbreyttum starfskjörum. Þarna er maður ráðinn í starf samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í lögum. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum. Ég hef aldrei nokkurn tíma séð slíkt, frú forseti. Menn reyna alltaf að fela það einhvern veginn — að boðið skuli sambærilegt starf eða eitthvað á sambærilegum kjörum. Þarna er sem sagt með lögum sagt að þessi ákveðni maður með þessa kennitölu skuli fá starfið áfram. Það vantar bara kennitöluna, ég legg til að það komi fram breytingartillaga um að kennitalan verði sett inn (Gripið fram í.) þannig að þetta verði alveg á tæru. Mér finnst mjög undarlegt að þetta skuli vera sett í lög og ég man ekki eftir að hafa séð svona nokkurn tíma. Svo á úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem sagt að starfa áfram að mér skilst samkvæmt bráðabirgðaákvæði II.

Það má vel vera að sú aðferð að setja allt í eina nefnd sé af hinu góða, það myndast þá ákveðin þekking þar, en ég geri athugasemd við hvernig formaður og varaformaður eru valdir og hvernig uppbygging nefndarinnar er og háskólagráðurnar. En ég geri alveg sérstaklega athugasemd við það að allir geti kært þó að þeir hafi enga hagsmuni.