139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið að lesa 2. gr. um nefndarskipanina og þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Einn nefndarmanna, sem skal vera formaður hennar og forstöðumaður og hafa starfið að aðalstarfi,“ — svo er búið að gera á þessu breytingar sem rugla þetta kannski — „er skipaður til fimm ára að undangenginni auglýsingu …“

Síðan stendur:

„Staðgengill forstöðumanns er varamaður formanns. Hann er ráðinn af forstöðumanni og skal uppfylla sömu hæfisskilyrði og hann.“

Er hann þá sem sagt ekki í nefndinni sem aðalmaður? Hver segir það? Ég stóð í þeirri meiningu að hann væri í nefndinni en gengi inn í starf formanns þegar sá forfallaðist. Þetta þyrfti að skýra betur finnst mér. Þá dró ég þá ályktun þar sem forstöðumaðurinn hefur yfirumsjón með starfinu og skipar í þessar starfsnefndir að hann gæti þá alltaf skipað sig og varaformanninn. Ég stóð í þeirri meiningu. En ef það er rétt að hann sé bara varamaður hans og sitji þá ekki í nefndinni nema hinn sé forfallaður þá lítur þetta kannski dálítið öðruvísi út. En það er mjög mikið vald sem forstöðumaðurinn hefur af því að hann skipar í þessar þriggja eða fimm manna undirnefndir og svo virðist sem nefndin eigi aldrei að fjalla um neitt mál fullskipuð sjö mönnum. Hann skipar sem sagt undirnefndir með einstök mál og þar með hefur hann heilmikil völd því að hann getur valið saman fólk, alla vega einn af þessum þremur sem er honum sammála í vissum málum og tekið hann alltaf með sér eða í þeim málum sem þeir eru sammála um og þá ráða þeir.