139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að ég undirstrikaði í ræðu minni að þetta gæti verið til einföldunar, það gæti verið til góðs að hafa þetta allt á einum stað þannig að ekki væri verið að velta boltanum fram og til baka og ýmsir aðilar að úrskurða.

Svo það að ég sé hlynntur þessari reglu, það er ég nefnilega ekki. Hún snýst ekki um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins stöðvast þar sem frelsi næsta einstaklings byrjar. Ef allir geta verið að röfla yfir kartöflugeymslunni hjá bóndanum um allan heim er það ekkert frelsi einstaklingsins. Hann hættir þá að geta byggt sínar kartöflugeymslur.

Það sem ég óttast mest er að fólk, sem eiginlega skiptir málið bara engu máli og hefur í rauninni enga hagsmuni af því, sé að skipta sér af til þess að fara eftir einhverjum öðrum pólitískum línum sem það vill ná fram, að það sé raunverulega notað sem þrýstingur til að stöðva ákveðnar framkvæmdir. Það er það sem ég óttast og hefur ekkert með frelsi að gera. Ef ég neyði hv. þingmann til að gera eitthvað er ég ekkert að auka frelsi hans eða mitt. Þetta getur nefnilega komið út sem nauð ef mjög margir nýta sér ákvæðið og kæra aftur og aftur einhverjar framkvæmdir.

Ég var mjög mikið á móti þessari reglu og hv. þingmaður getur ekki sagt að ég hafi verið hlynntur henni. Hins vegar sé ég möguleika á einföldun, ég tók það fram í ræðu minni, ef framkvæmdin tekst og alveg sérstaklega ef menn hætta við þessar kærur án hagsmuna.