139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að hafa ferlana einfalda og get að sjálfsögðu tekið undir slíka umræðu án þess þó að því fylgi endilega að gefa þurfi — og ég veit að hv. þingmaður er alls ekki að tala um það — einhvern afslátt af kröfum til umhverfisverndar eða neins þess háttar. Ferlar þurfa hins vegar að vera ljósir og taka á þeim hættum ef má orða það þannig sem þeim er ætlað að taka. Þeir þurfa hins vegar ekki að vera 18 mánuðir, 24 mánuðir eða eitthvað slíkt til að svo sé.

Ég hef velt fyrir mér einu. Í 1. gr. frumvarpsins stendur — í rauninni kemur það fram í heiti frumvarpsins, með leyfi forseta: Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Nú er verið að friða ýmsa staði, sem er líka mikilvægt, og vernda hitt og þetta. Hvert kæra þeir sem eru mótfallnir slíku? Ég á kannski að vita það, en ég velti fyrir mér hvort verið sé að gæta samræmis í þessu, hvort slíkir hlutir ættu þá ekki einnig að falla undir þetta.

Nú kann að vera að í öðrum lögum, t.d. náttúruverndarlögum, sé um þetta fjallað, ég bara man það ekki og þekki það ekki. En ég velti þessu upp, frú forseti, hvort verið sé að taka ákveðinn punkt umfram annan, þ.e. þeir sem eru gjarnan á móti framkvæmdum eða slíku fái þarna leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir sem eru hins vegar á móti verndun og friðun á hinum ýmsu hlutum hafi ekki sama aðgang.