139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að það væri langæskilegast að um málsmeðferðarreglur á þessu sviði gæti náðst víðtæk sátt. Það væri líka æskilegt ef við gætum náð víðtækri sátt um nýtingarstefnu eins og hann er að vísa til varðandi þá vinnu sem farið hefur fram í undirbúningi rammaáætlunar. Ég hygg að út frá öllum forsendum ætti að vera einfaldara að ná samkomulagi um málsmeðferðarreglur frekar en hinar eiginlegu nýtingarákvarðanir. Ég hygg að það verði alltaf áherslumunur varðandi hvort nýta eigi tilteknar náttúruauðlindir með tilteknum hætti. Við getum auðvitað reynt að leita málamiðlana í hverju tilviki fyrir sig en ég hygg að það verði erfitt.

Í sjálfu sér ætti að vera hægt að ná sátt um málsmeðferðarreglurnar en ég vildi bara vekja athygli á því að þegar lagt er upp með afar róttæka leið sem gengur mjög langt miðað við það sem þekkist í kringum okkur þá minnka líkurnar á því að hægt sé að ná einhverjum málamiðlunum. Þeir sem að málinu standa, ríkisstjórnarflokkarnir og hæstv. umhverfisráðherra, leggja málið ekki fram með þeim hætti að líklegt sé að það leiði til sáttar.