139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum þessi mál erum við ekki síst að ræða úrskurðarnefndir. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar og gott ef ekki líka í meirihlutaálitinu hefur þessum sjálfstæðu úrskurðarnefndum fjölgað mikið. Ég held að allir geti verið sammála um að jafngóðar og þær geta verið er ekki um sömu vönduðu málsmeðferð að ræða og hjá dómstólum.

Væntanlega hafa menn sett þessar úrskurðarnefndir, virðulegi forseti, af stað á sínum tíma til að flýta fyrir málum því að eins og allir vita tekur það tíma og því fylgir kostnaður að fara með mál fyrir dómstóla. Því er mjög áhugavert að sjá tímann sem það hefur tekið að meðaltali hjá þessum tveimur úrskurðarnefndum sem á að sameina í eina, þ.e. úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál og úrskurðarnefnd um hollustu og mengunarvarnir, að fá mál þar í gegn. Tíminn á að vera 4–8 vikur. Hjá úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál var meðalmálstími 15,5 mánuðir á árinu 2010 en hins vegar ekki nema 9–10 mánuðir hjá úrskurðarnefnd um hollustu og mengunarvarnir.

Virðulegi forseti. Það segir sig sjálft að þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt og örugglega þvert á það sem lagt var upp með þegar menn settu slíkar úrskurðarnefndir á laggirnar. Ég held og ég hefði viljað sjá að menn hefðu lagt meira upp úr því að reyna að einfalda ferlið og ganga þannig fram að þessir hlutir gætu gengið hraðar fyrir sig. Eða er það þannig að það sé vilji einhvers hv. þingmanns að lengja tímann eða auka kostnaðinn fyrir þá aðila sem eru annaðhvort kærðir eða ætla að kæra?

Virðulegi forseti. Þegar maður lítur á frumvarpið er það svolítið lögfræðifrumvarp. Þá er ég ekki að vísa til þess að það þurfi lögfræðinga til að skilja það eða fjalla um það heldur erum við að auka störf fyrir lögfræðinga. Nú eru lögfræðingar auðvitað alls góðs maklegir og ég ætla ekki að gagnrýna þá en mér finnst þeir bara hafa alveg nóg að gera. Ég held að eitt af því sem við þurfum að leggja til grundvallar þegar við breytum lögum og förum yfir mál sé að við höfum á bak við, eins og í þessu tilfelli, eitthvað sem við köllum aðila máls og annað slíkt. Þetta eru einstaklingar sem oft og tíðum hafa kannski ekki mikið á milli handanna, mega í það minnsta ekki við miklum skakkaföllum.

Þegar einstaklingar eða lítil eða stór fyrirtæki fara til dæmis í framkvæmdir, sem við skulum vona að sé fyrst og fremst til að bæta annaðhvort hag viðkomandi einstaklinga eða lífskjör og aðstæður hér á landi, þá mega þau ekki við miklum umframkostnaði.

Nú er ég ekki að tala gegn því að sú meginhugsun sem kemur fram í þeim lagafrumvörpum sem við erum að fjalla um nái fram að ganga, þ.e. að við höfum hér til staðar regluverk sem við getum sagt að sé til varnar náttúrunni og til varnar ýmsum hagsmunum sem við teljum mjög mikilvægt að gæta og huga að, ég er ekki að segja það, virðulegi forseti. En ég held að við ættum að fara sérstaklega yfir þessi mál með það að markmiði að einfalda ferlið, minnka kostnað sem geri það að verkum að þessir hlutir — sem örugglega var lagt upp með að ættu að gerast á tiltölulega skömmum tíma, alla vega ekki of löngum — taki styttri tíma. Í það minnsta er einhver ástæða fyrir því að í lögunum er gert ráð fyrir að ferlið taki 4–8 vikur. Við eigum að nálgast þetta með þeim hætti að við sjáum ekki mál taka allt að því á annað ár, 15,5 mánuði að meðaltali.

Þegar ég lít, virðulegi forseti, á þessar breytingar get ég ekki séð að menn séu neitt að koma til móts við þennan vanda. Þvert á móti er margt sem bendir til þess að menn ætli að flækja stigið, gera málið enn erfiðara og þar af leiðandi kostnaðarsamara fyrir þá aðila sem kæra eða verða kærðir. Þetta er ekki einsdæmi, bara í þessu máli. Við sjáum það t.d. í samkeppnismálum að þegar úrskurðir koma frá Samkeppniseftirlitinu eru aðstæður oftar en ekki gjörbreyttar, jafnvel hjá því fyrirtæki sem fór af stað og kærði ákveðið fyrirtæki, þar væri búið að skipta um eigendur og jafnvel þess vegna hætt að starfa. Við höfum ekki verið að huga að þessu og þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert á samkeppnislögunum miða engu að því, virðulegi forseti, að flýta málsmeðferð. Það var viðurkennt hér í þingsal að þær breytingar sem á að fara í á samkeppnislögunum og þær aukafjárveitingar sem voru settar í Samkeppniseftirlitið hjálpuðu ekkert til við að flýta málum, ekki neitt.

Virðulegi forseti. Margir hv. þingmenn hafa rætt þessi mál. Ég vildi kannski fá að vita og mér er sama hvort það er frá hv. þingmanni úr meiri eða minni hluta: Var þetta rætt í hv. umhverfisnefnd? Voru menn að nálgast þetta með þeim hætti að hér væri verið að einfalda ferlið, minnka kostnað, stytta tíma? Voru þau sjónarmið höfð uppi og er eitthvað í þessum breytingum sem gerir það að verkum að hægt sé að ná þeim markmiðum?

Ég sé í nefndaráliti frá minni hluta umhverfisnefndar mynd, leyfisferli með landsskipulagi. Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort fólk sér þetta en þetta er eins og völundarhús. Er það í þágu umhverfisins að hafa svona ferli? Trúir því einhver? Eða í þágu þjóðarinnar?

Virðulegi forseti. Í dag var umræða um atvinnumál. Hæstv. forsætisráðherra talaði um mikilvægi þess að fara í fjárfestingar og sagði að allir hv. þingmenn væru sammála um það, allir hv. þingmenn væru sammála um að fara í fjárfestingar, auka hagvöxt og skapa atvinnu. Gott og vel, virðulegi forseti. Nú vantar klukkuna tíu mínútur í sjö. Sú umræða átti sér stað fyrir nokkrum klukkutímum. Erum við að vinna eftir því sem hæstv. forsætisráðherra segir að allir séu sammála um? Gengur þetta mál út á að ýta undir það að hér sé hægt að fara í fjárfestingar? Getur einhver bent á eitthvert atriði í frumvarpinu sem ýtir undir það?

Nú veit ég ekki, virðulegi forseti, hvort einhver trúir því að með því að flækja ferli sem gerir það að verkum að lengri tíma taki að fara í framkvæmdir, sem oft á tíðum eru bara tiltölulega einfaldar og sjálfsagðar, sé gott fyrir umhverfið — og þá segi viðkomandi: Það er fullkominn misskilningur.

Ég vek athygli á því að komið hefur fram í fjölmiðlum að menn lenda oftar en ekki í vandræðum þegar þeir fara í framkvæmdir sem svo sannarlega eru í þágu umhverfisins. Ég heyrði í útvarpinu um daginn að á Austfjörðum eru menn að reyna að koma á laxastiga til að bæta búsetuskilyrði laxa. Er það eitthvað sem einhver getur verið á móti? Það þarf svo sannarlega að vanda til verka án nokkurs vafa og ég held að allir séu sammála um það. Ég man ekki hvað tekið hefur langan tíma að koma þeim gjörningi fyrir en ef ég man fréttina rétt var það eitt af því sem menn höfðu áhyggjur af, því að Íslendingar eru almennt mjög umhverfissinnað fólk enda höfum við ekki efni á öðru. Við lifum á hreinni náttúru og lifum á henni. Við munum einungis lifa á henni um ókomna tíð nema ef hér verður sjálfbærni. Ég reyndar held að þetta sé Íslendingum í blóð borið því að við erum öll meðvituð um það að ef við göngum of nærri náttúruauðlindum fer illa fyrir okkur. Við höfum þurrkað út eina dýrategund og ég held að við séum öll með samviskubit yfir því, þ.e. geirfuglinn. Það er eitthvað sem ég held að við skömmumst okkar fyrir, því miður. En saga okkar er miklu betri en annarra þjóða almennt séð hvað þetta varðar. Því miður hefur verið gengið of nærri mörgum dýrategundum sem hefur gert það að verkum að þær hafa jafnvel orðið útdauðar og í rauninni er það ótrúlegur fjöldi sem hefur orðið útdauður og jafnvel er það að gerast enn í dag.

Virðulegi forseti. Mér finnst að menn hafi átt að nálgast þetta svolítið eins og autt blað. Við höfum núna reynslu af því fyrirkomulagi sem hefur verið til staðar. Spurningin er: Hvernig getum við bætt það? Við eigum ekki að hnika frá markmiðunum en það er augljóst að þetta ferli er of flókið, það tekur of langan tíma og enginn græðir á því.

Ef einhver heldur að það sé sérstakt gleðiefni fyrir umhverfið að einstaklingur með lítið fyrirtæki sem fer út í framkvæmdir verði gjaldþrota — vegna þess að það tekur hann langan tíma að standa í að svara kærum, lögfræðikostnaðurinn verður of mikill, langan tíma tekur að koma starfseminni í gang sem hann var búinn að ráðgera að skapa tekjur af — þá er það fullkominn misskilningur. Það hefur ekkert með umhverfisvernd að gera. Eina sem gerist er að lífskjör versna og viðkomandi einstaklingur verður kannski í mjög erfiðum málum.

Nú kynni einhver að segja sem hlustar á þetta: Þetta snýst bara um stór fyrirtæki, stóru vondu fyrirtækin, þetta snýst um að stoppa þau. En það er bara þannig, virðulegi forseti, að yfir 90% af fyrirtækjum á Íslandi eru lítil eða meðalstór. Íslenskt efnahagslíf mun aldrei rétta úr kútnum nema þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki fái að njóta sín. Svo einfalt er það. Ísland samanstendur ekki af stórum fyrirtækjum, það er í það minnsta ekki það sem heldur Íslandi gangandi.

Virðulegi forseti. Þetta hangir allt á þeirri hugsun að nú ætli menn að ganga lengra en allar aðrar þjóðir og koma því hér á sem kallað er almenn kæruaðild. Allir geti bara nákvæmlega kært allt, og ekki aðeins það sem snýr að þessum málum, ekki bara þeir sem eru með lögheimili hér á landi heldur líka annars staðar. (MÁ: … gert allt.) Þegar að þessum málum kemur, hv. þm. Mörður Árnason, sem kallar hér fram í og ég held að hann hafi gert það örugglega af mjög góðum hug (Gripið fram í.) og ég (MÁ: … ekki nennt að lesa frumvarpið.)

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmann að leyfa ræðumanni að hafa hljóð.)

Virðulegi forseti. Þetta er alveg sársaukalaust af minni hálfu þó svo að hv. þm. Mörður Árnason sé kominn í helgarstuð og láti okkur hv. þingmenn heyra það, það er bara við hæfi.

Ég geri ráð fyrir að allir séu sammála um að þetta opni á allra handa aðstæður sem við viljum ekki sjá að komi fram. Hver hagnast á því ef einhver tekur upp á að safna saman mörgum aðilum sem kæra ákveðna framkvæmd og fær kannski til þess aðila, ekki bara á Íslandi, sem hafa enga lögvarða hagsmuni eða eru ekki í umhverfissamtökum heldur — ja, hafa bara nákvæmlega lítið eða ekkert um málið að segja? Ef ég skil þetta rétt kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að taka á út það sem snýr að því að heimilt sé að úrskurða kæranda til að greiða málskostnað þegar kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framkvæmd. Meiri hlutinn telur slíkt ákvæði óþarft og í ósamræmi við meginreglu Árósasamningsins. Ef um það væri að ræða að verið væri augljóslega að tefja framkvæmd að tilefnislausu þá get ég ekki séð að í frumvarpinu séu nokkrar einustu girðingar.

Hverra hagsmuna eru menn að gæta eða hvaða hugmyndum eru menn að fylgja eftir eða styðja við þegar menn ganga fram með þeim hætti? Hér hefur verið rakið ágætlega að þetta verður þá væntanlega einsdæmi — nema einhverjar upplýsingar vanti í þá umræðu sem hér hefur farið fram. Við erum ekki að fara sömu leið og Norðurlöndin og ef menn ætla að finna eitthvert samræmi er helst að líta til Portúgals en ef rétt er hér með farið í nefndaráliti minni hlutans eru menn að ganga lengra en þar. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á af hverju menn vilja fara þessar leiðir. Ég þykist vita að ef aðili sem ætlar í framkvæmdir — almenna reglan við framkvæmd er sú að hún kostar peninga og almenna reglan er sú að ef menn fara í eitthvað sem snýr að atvinnuuppbyggingu þá kostar það líka peninga að bíða.

Menn eru augljóslega að lengja í ferlinu sem gerir það að verkum að kærandi þarf að kaupa sér fleiri lögfræðinga, sem kostar ekki lítið eins og við þekkjum. Af hverju er það, til hvers? Það er auðvitað ekki í þágu umhverfisins, það hefur ekkert með það að gera. Ekki nema — og ég ætla engum það — að vera svo forpokaðir að telja að ef ekkert er gert, engin framkvæmd til eða frá, þá hafi það sérstaklega góð áhrif á umhverfið. Reyndar taka flestar nútímaframkvæmdir mið af umhverfinu og menn eru að reyna að bæta það. Og eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal áðan er það nú þannig að menn huga að umhverfismálum þegar komin er ákveðin velmegun í viðkomandi þjóðfélagi. Allir þeir sem fara t.d. til fátækari ríkja sjá það og það er kannski frekar rökrétt — menn þurfa ekki annað en líta til Íslands eins og það var áður — þegar menn þurfa fyrst og fremst að hugsa um að hafa ofan í sig og á þá finnst þeim umhverfismál vera lúxus.

Við erum komin miklu lengra, við viljum setja umhverfismál í öndvegi en það þýðir ekki að menn eigi að lengja í ferli, auka kostnað og búa til vinnu fyrir lögfræðinga. Það hefur ekkert með umhverfisvernd að gera.

Virðulegi forseti. Mér líst ekki vel á þetta mál. Ég held að við séum að fara þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í dag þegar hún sagði að samstaða væri meðal allra að koma efnahagslífinu af stað með fjárfestingu og skapa störf.