139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[19:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni hvað þetta varðar. Hann hefur meðal annars reynslu úr sveitarstjórnum og lýsti henni hér ágætlega. Ég er sammála honum um að við eigum ekki að slá af kröfum en það er ekki samasemmerki við það að kerfi þurfi að vera svifasein.

Ég held að við séum sammála um það, virðulegi forseti, að það hagnast enginn á því að tíminn sé mjög langur, enda settu þeir sem lögðu af stað með þetta væntanlega sérstök tímamörk sem standast ekki. Og ef allt mannkyn kemur að þessu, eins og hv. þm. Mörður Árnason kallaði hér fram í, er það kannski ekki líklegt til að stytta tímann. En ef við lítum á björtu hliðarnar eru eftir því sem við best vitum engar geimverur sem geta kært hér.