139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

uppbygging fangelsismála.

[10:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er þá upplýst að hin ógeðfellda, svo ég noti orð hæstv. ráðherra, hugmynd um opinbera samkeppni milli byggðarlaga kom frá honum og hann er þá orðinn sammála mér frá þeim tíma að það sé ekki skynsamleg leið. En til hvers var sú uppástunga gerð á þeim tímapunkti og síðan er núna ári síðar komin niðurstaða um að byggja á Hólmsheiði vegna fjarlægðar?

Ég hef líka aflað mér upplýsinga um að aukinn kostnaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við að keyra sjúklinga og vanfærar konur yfir Hellisheiði geti orðið á bilinu 30–60 millj. kr. og ég hef heyrt að það sé verið að tala um sparnað við að flytja fanga yfir Hellisheiðina upp á 15 milljónir eða svo. Eru rökin sem eiga að vera úrslitaatriði í þessu máli þau að það eigi að spara 15 milljónir hjá Lögreglunni í Reykjavík vegna þess að það sé svo dýrt að keyra fanga á Litla-Hraun? Er svo allt í lagi að leggja (Forseti hringir.) tvöfaldan, þrefaldan eða jafnvel fjórfaldan þann kostnað á sjúklinga við að keyra þá til Reykjavíkur að sækja heilbrigðisþjónustu?