139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

tollar á búvörum.

[10:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég beini til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrirspurn sem tengist viðskiptum og tollkvótum. Við munum að í kjölfar GATT-samningsins var komið upp ákveðnu magni af tollkvótum á búvöru, m.a. til að stuðla að aukinni samkeppni á markaði með búvöru og ekki síður að lægra verði til neytenda. Við vitum núna að það hefur ekki gengið eftir og það er að mínu mati með mjög vanhugsuðum breytingum hæstv. landbúnaðarráðherra þar sem hann hefur breytt til hins verra tollafyrirkomulaginu sem við höfðum.

Fram til 2009 voru magntollar af þessum búvöruflokki en eftir þær breytingar sem hæstv. landbúnaðarráðherra stóð fyrir breyttist þetta yfir í verðtolla. Við sjáum fram á stórhækkanir á innflutningi á búvörum og það er varla hægt að nálgast ákveðnar tegundir búvara. Ég spyr hæstv. ráðherra: Voru þessar breytingar ræddar í ríkisstjórn? Voru þessar breytingar yfir í ofurtolla, að mínu mati, ræddar í ríkisstjórn? Hefur álit umboðsmanns Alþingis um tollamálin verið rætt í ríkisstjórn og er ekki hæstv. ráðherra sammála mér í því að þetta hafi verið vanhugsaðar breytingar af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra? Þær hafa að mínu mati stuðlað að neikvæðri umræðu um landbúnaðinn og um bændur í landinu en ekki síður eru þetta vanhugsaðar breytingar fyrir neytendur. Þær hafa stuðlað að hærra vöruverði og ég er hrædd um að þessar breytingar hæstv. ráðherra á þessum tollum muni stuðla að því að festa í sessi kerfi sem þarfnast endurskoðunar.