139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

tollar á búvörum.

[10:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tel þessi sjónarmið hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem er einmitt yfirmaður verslunar og viðskipta í landinu, komin fram. Hann telur ákvarðanir hæstv. landbúnaðarráðherra hafa verið vanhugsaðar þegar þær hafa stuðlað að því að við höfum fengið hærra verð. Neytendur á Íslandi standa frammi fyrir hærra búvöruverði en fyrir breytingu. Það er ákvörðun sem ráðherra Vinstri grænna tók. Um leið verð ég að segja að ég fagna þessu viðhorfi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Ég man eftir ungri konu í Reykjavík sem tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á þessu svæði. Barátta hennar var á þann veg að tollar væru tímaskekkja. Það má til sanns vegar færa að þeir tollar sem Vinstri grænir eru að koma á með stuðningi Samfylkingar séu tímaskekkja. Ég tel kominn tíma á að við förum vandlega yfir tollamál, yfir það hvernig við getum um leið staðið undir öflugu landbúnaðarkerfi en það verður ekki gert öðruvísi en að fara yfir bæði innflutning og ekki síður útflutning á landbúnaðarvörum.