139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

tollar á búvörum.

[11:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þeirri umgjörð álagningar ofurtolla sem steytir núna augljóslega á skeri var komið á — ég var við það borð þegar henni var komið á að kröfu einangrunarhyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum í samningaviðræðum við Alþýðuflokkinn 1994. Það er með öðrum orðum umgjörð sem einangrunarhyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum töldu óhjákvæmilega og þeir vildu búa hana með þeim hætti að landbúnaðarráðherra gæti einn ákveðið þetta og hann þyrfti eiginlega varla að fara eftir milliríkjasamningum. Búin var til ráðgjafarnefnd til að tryggja að ákvarðanir yrðu teknar á málefnalegum grunni. Þessi umgjörð var augljóslega alltaf veikburða. Ég held að það sé mjög mikilvægt núna að menn horfi á álit umboðsmanns Alþingis því að það liggur fyrir að þetta getur ekki verið eina svið þjóðlífsins þar sem (Forseti hringir.) ráðherra á að geta lagt á skatta án skýrra lagaheimilda. Það er það sem umboðsmaður Alþingis bendir á og ég held að við verðum að taka lagagrunninn til endurskoðunar (Forseti hringir.) í ljósi athugasemda hans.