139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

[11:02]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um hvað líði endurskoðun laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sérstaklega vil ég spyrja um allt er varðar eignarhald á landi og eignarhald á auðlindum. Auðvitað vitum við öll að tilefni til slíkrar endurskoðunar er margþætt.

Það er augljóslega löngu tímabært og einnig nauðsynlegt að gera í tengslum við ný vatnalög. Lögin frá 1998 eru mjög vanhugsuð, mér liggur við að segja beinlínis hættuleg, enda tengja þau saman eignarhald á landi og eignarhald á auðlindum. Slíkt gengur fullkomlega í berhögg við hugsun og kröfur nýrra tíma þar sem almannaréttur á að vera í fyrirrúmi og í öndvegi í öllu tilliti.

Tilefni fyrir slíkri endurskoðun hrannast upp, nú síðast þegar komið hefur á daginn að kínverskur auðmaður vill kaupa stórt landflæmi á Íslandi þar sem kunna að vera mikilvægar auðlindir, þar á meðal vatn. Því hefur verið lýst yfir að endurskoðun sé hafin og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hver annast þá endurskoðun, hvar hún er á vegi stödd, hvaða pólitísk leiðarljós eru höfð í öndvegi við þá endurskoðun og hvenær má búast við einhverjum afrakstri af þeirri vinnu.