139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi hv. menntamálanefndar Alþingis um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, með síðari breytingum.

Frumvarpið er afar einfalt í sniðum. Tilgangur þess er að veita kennaranemum sem hófu kennaranám sitt áður en lögum um kennaranám var breytt á vormánuðum 2008 og hafa lokið bachelor-prófi, aukið svigrúm til þess eftir atvikum að ljúka sínu námi og/eða sækja um leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Tilefnið er að það mun vera allstór hópur, í kringum 90 einstaklingar, sem hafði sótt um leyfisbréf, hafði lokið námi sínu og uppfyllt allar tilskildar menntakröfur, sem ekki náði að uppfylla ákvæði gildandi laga um að sækja um leyfisbréf fyrir 1. júlí sl. Þessi hópur er tilefni þess að lagt er til í frumvarpinu að 3. mgr. 23. gr. laganna verði breytt í þá veru að þeir sem hófu kennaranám fyrir 1. júlí 2008 og hafa lokið bachelor-prófi í tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum fyrir 1. janúar nk. eigi rétt til leyfisbréfs til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Við samþykkt laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sem áður var getið, var ákveðið að 3., 4. og 5. gr. laganna tækju til þeirra sem byrjuðu kennaranám eftir gildistöku laganna. Jafnframt er ákveðið að þeim sem hófu kennaranám fyrir þann tíma veittist frestur til 1. júlí árið 2011 til að fá leyfisbréf og eru lögin afdráttarlaus hvað það varðar. Þau gera ekki ráð fyrir neinni aðlögun eða undanþágum, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna. Þrátt fyrir það hafa mennta- og menningarmálaráðuneyti borist fyrirspurnir frá aðilum sem ekki hafa getað lokið námi til kennsluréttinda eftir eldra kerfi innan tímamarkanna og er í flestum tilvikum um að ræða töf í námi vegna veikinda. Hér er um að ræða takmarkaðan fjölda námsmanna sem á ólokið fáum námskeiðum og ætti að geta lokið þeim fyrir áramót að mati ráðuneytisins.

Þrátt fyrir að lögin séu afdráttarlaus hvað varðar gildistöku má telja það sanngirnismál að þeim einstaklingum sem orðið hafa fyrir töfum í námi vegna veikinda og eiga lítið eftir af námi sínu verði gert kleift að ljúka því fyrir áramót og fá útgefið leyfisbréf á grundvelli ákvæða eldri laga nr. 86/1998. Því er lagt til að þeir sem eiga ólokið námi til kennsluréttinda fái tækifæri til að ljúka námi sínu fyrir 1. janúar 2012 og fái útgefið leyfisbréf að því loknu.

Ég vil láta þess getið að menntamálanefnd mun skoða það sérstaklega hvort hér sé um nægilega rúman frest að ræða til að mæta þeim nemendum sem hafa af lögmætum ástæðum, svo sem vegna veikinda, ekki náð að ljúka námi sínu í tíma. Við munum skoða það í nefndinni milli 1. og 2. umr. hvort gera þurfi breytingar á tímafrestinum og hvort þau rök sem heyrst hafa um að það kalli á önnur vandamál í því samhengi sem vinni á einhvern hátt gegn þeim breytingum sem lögunum frá 2008 var ætlað að ná.

Frumvarpið er ekki meira að vöxtum og hef ég rakið efnisatriði þess í stórum dráttum.