139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir máli sem flutt er af efnahags- og skattanefnd Alþingis. Auk mín standa að málinu hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal úr Sjálfstæðisflokki, hv. þm. Birkir Jón Jónsson úr Framsóknarflokki, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og Árni Þór Sigurðsson úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Magnús Orri Schram úr Samfylkingu.

Hér eru tekin saman í eitt frumvarp nokkur atriði sem verið hafa til umfjöllunar í þinginu og síðan önnur sem verið hafa í opinberri umræðu um nokkurt skeið. Við Íslendingar höfum lagt áherslu á að styðja og styrkja með almennum aðgerðum við þá starfsemi í landinu sem er á menningarsviðinu og lýtur ekki síst að ræktun tungu okkar í því að skapa m.a. bókaútgáfu og tónlistarútgáfu í landinu sem hagfelldust almenn skilyrði til vaxtar og viðgangs. Því hafa bækur og tónlist verið í lægra virðisaukaskattsþrepinu um langt árabil. Á þessu sviði, í þessari miðlun í skapandi greinum, hefur hins vegar orðið mikil tæknibreyting. Gamla formið sem menn studdust við þar, prentaðar bækur og geisladiskar með tónlist, hefur heldur verið að víkja, ekki síst erlendis, fyrir rafrænni útgáfu sem hefur hins vegar ekki notið sömu skilyrða, heldur hefur hún sætt skattlagningu upp á 25,5% virðisaukaskatt. Því hefur lengi verið á það bent að hér skorti á jafnræði og að bók eigi að sæta sömu skattheimtu hvort sem hún er prentuð eða gefin út á rafrænu formi. Sama á við um tónlist hvort sem hún er gefin út á diski eða menn hala hana niður á netinu eða láta hana streyma á internetinu eins og algengt er. Það jafnræðissjónarmið hafa menn hlustað á og kemur nefndin til móts við það.

Hér er lagt til að virðisaukaskattur á miðlun bóka og tónlistar á netinu og rafrænt verði lækkaður úr 25,5% í 7%. Með því eru skattar lækkaðir verulega á þessa nýmiðlun til þess að greiða fyrir rafbókavæðingu í landinu sem er gríðarlega mikilvægt framfaramál. Það er m.a. gert til þess að styrkja starfsskilyrði skapandi greina og um leið útgáfu menningarefnis, ekki síst á íslenskri tungu, eins og hingað til.

Við þurfum líka að líta í kringum okkur því að ýmsar aðrar þjóðir hafa hver á fætur annarri breytt útgáfustarfsemi sinni, ekki síst á sviði kennslubóka, yfir í rafræna útgáfu. Það gefur kost á því að gefa efni út með allt öðrum og þróaðri hætti og stuðlar að verulegum framförum í menntamálum almennt að geta hagnýtt sér þau tækifæri. Það er auðvitað mikilvægt að hið skattalega umhverfi á Íslandi stuðli frekar að því að greiða fyrir þessari þróun því að það er út af fyrir sig dýrt að þróa rafræna útgáfu. Það er mikilvægt að við leggjum ekki stein í götu þeirra sem vinna það brautryðjendastarf hjá okkur vegna þess að þeir vinna á gríðarlega litlu málsvæði og það þurfum við Íslendingar alltaf að muna. Það eru þrátt fyrir allt aðeins 0,3 milljónir manna sem tala þá fögru tungu íslensku. Sagan sýnir okkur að það hefur oft verið býsna miklum erfiðleikum háð að gefa út efni fyrir þennan litla markað, hvort sem það eru blöð eða bækur. Ég held að ég uppljóstri ekki neinu leyndarmáli með því að segja að ein af ástæðunum fyrir því að menn ákváðu á sínum tíma að færa til að mynda bækur og blöð í lægra skattþrep var sú að menn sáu í gjaldþrotaskránni hjá sýslumanni að það var býsna örðugt að standa í slíkri útgáfu á þessu litla markaðssvæði með þá háu skatta sem hér voru. Gjaldþrot í blaða- og bókaútgáfu voru býsna tíð hér á landi fyrir þær breytingar, einkum á tímabili.

Síðan liggja líka þau sjónarmið hér að baki að talsvert hefur verið um svarta starfsemi á þessu sviði, þ.e. menn hafa verið að miðla efni með rafrænum hætti fram hjá þessum háa skatti. Þar af leiðandi hefur ríkissjóður ekki fengið neitt í sinn hlut. Ríkissjóður gæti því fengið nokkurn skerf með því að fara fram með hóflegri hætti í skattlagningunni. Þó felst ávinningurinn fyrir ríkissjóð kannski fyrst og fremst í því að hér er líka gert ráð fyrir því að þeir sem selja hingað efni yfir netið komi inn í virðisaukaskattskerfið; erlendir aðilar, stórir vefir. Til að mynda hefur verið nefnt að eðlilegt sé að Amazon skrái sig á Íslandi og skili hér virðisaukaskatti. Yfirleitt er um að ræða alþjóðlegar verslanir sem eru með virðisaukaskatt inni í verðinu. Slík breyting á ekki að hafa áhrif á verð hjá þessum seljendum, en þeir hafa ekki skilað virðisaukaskatti hér heldur hefur sú skylda í raun hvílt á neytandanum. En með því að gefa erlendum seljendum færi á því að skrá sig hér munu þeir framvegis skila hér sköttum. Endurskoðunarskrifstofur hafa upplýst okkur um að ýmsir af þessum fjölþjóðlegu aðilum sem eru vanir að skila skatti í hverju landi þar sem þeir starfa hafa beinlínis leitað eftir því að fá að skrá sig hér. Ég held að hófleg skattlagning á þá tónlist og þær bækur sem þessir seljendur miðla sé hvatning fyrir þá til að koma og skrá sig hér og skila sköttum.

Þá gerir nefndin líka ráð fyrir því að gera nokkrar breytingar á tollum sem snúa að ýmsum afspilunartækjum, mp3, ipod og öðrum slíkum tækjum. Það er gert til þess að greiða fyrir því að þessi tækni þróist hér hratt og vel en ekki síður til að laða verslun með þessi tæki í ríkari mæli til landsins en verið hefur. Í ljós kom við umfjöllun nefndarinnar um málið að talið er að af 70 þúsund ipodum sem eru í landinu hafi 85% þeirra verið keyptir í útlöndum þannig að ríkissjóður virðist ekki hafa haft miklar tekjur upp úr því að hafa umframtolla og gjöld á þessum vörum. Líklegt er að verði fallið frá þessum gjöldum aukist sala þessarar vöru hér innan lands og fær ríkissjóður þá virðisaukaskattinn af þeirri sölu. Talið er að með núverandi fyrirkomulagi sé beinlínis verið að hrekja slíka verslun og viðskipti úr landi með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð.

Málið á sér að hluta til uppruna í tveimur þingmálum sem verið hafa til umfjöllunar á þinginu. Mál hæstv. fjármálaráðherra sem lýtur að skattlagningu erlendra aðila hér á landi sem selja vörur yfir netið var hluti af þeim bandormi sem var til umfjöllunar á júníþinginu. Efnahags- og skattanefnd vildi þó ekki innleiða það ákvæði í þeirri löggjöf heldur skoða það heildstætt. Nefndin hefur líka verið að skoða þann vettvang í góðu samstarfi við Bandalag íslenskra listamanna, útgefendur og aðra sem vinna að þessum málum. Við þökkum kærlega fyrir það góða samstarf.

Annað mál sem er í raun og veru aðdragandinn að þessu þingmáli er frumvarp sem flutt var af hv. þm. Merði Árnasyni og þingmönnum úr öllum flokkum á þinginu. Það laut að því að færa skattlagningu á bækur niður í neðra þrepið. Nefndin gengur síðan skrefinu lengra með því að láta það einnig gilda um tónlist og taka tækjaþróunina með.

Ég vil að lokum þakka þingmönnunum í efnahags- og skattanefnd kærlega fyrir samstarfið. Það er ánægjulegt að í þinginu náist þverpólitísk samstaða um að flytja mál og greiða fyrir afgreiðslu þess á þessu stutta septemberþingi. Það er ekki síst ánægjulegt fyrir okkur sem höfum þurft að fara í erfiðan leiðangur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum á undanförnum missirum og árum að hafa loksins tækifæri til að létta skattheimtuna í landinu og stuðla að því að örva viðskipti og starfsemi með því að gefa nokkuð eftir af tekjum ríkissjóðs. Við væntum þess þó að þær geti engu að síður haldist og jafnvel aukist með tímanum.