139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[11:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni efnahags- og skattanefndar fyrir hans framsögu og nefndinni fyrir að flytja frumvarpið. Ég get tekið undir það og stutt það og fagna því að það sé komið fram. Ég vil líka taka undir það sem fram kom í lok ræðu hv. þm. Helga Hjörvars, vonandi, og kannski líklega, getur slík skattalækkun orðið til að auka viðskipti með vörur af þessu tagi, alla vega lögmæt viðskipti sem skattar eru greiddir af þannig að þetta þurfi ekki að þýða tekjutap fyrir ríkið. Ég hygg að það eigi við á fjölmörgum öðrum sviðum að með því að lækka skattana þurfi menn ekki endilega að taka á sig tekjutap, heldur geti jafnvel aukið veltuna sem skattlögð er þannig að tekjur ríkissjóðs muni standa í stað eða jafnvel aukast við skattalækkunina. Ég held að þetta séu mjög mikilvæg sjónarmið sem fram koma og eru greinilega grundvöllurinn að þessu máli að þessu leyti.

Ég vildi vekja athygli á tvennu í sambandi við þetta mál, sem ég styð eins og áður hefur komið fram. Annars vegar er það það að þetta mál dregur fram ókosti þess að hafa tvö skattþrep, sérstaklega tvö skattþrep sem jafnmikill munur er á eins og við búum nú við — annað skattþrepið er 25,5% og hitt er 7% — þannig að það verður mjög brött hækkun úr neðra þrepinu í það hærra. Það er auðvitað ókostur. (MÁ: Þrjú þrep.) Hv. þm. Mörður Árnason kallar fram í að þrepin séu þrjú og vísar væntanlega til þess að tilteknir mjög afmarkaðir þættir eru í 0%. (Forseti hringir.) En ég vildi vekja athygli á þessu og spyrja hv. þm. Helga Hjörvar (Forseti hringir.) hvort hv. efnahags- og skattanefnd telji ekki ástæðu til að skoða fleiri þætti sem snerta virðisaukaskatt og þá um leið vörugjöld og tolla út frá sama (Forseti hringir.) sjónarmiði.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)