139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að fá tækifæri til að lækka skatta á skapandi greinar og miðlun bókmennta og tónlistar á netinu. Það er full ástæða til þess, sem hv. þingmaður vék að, að kanna vel á hvaða öðrum sviðum við getum beitt ívilnunum af þessu tagi. Við höfum gert það hvað varðar viðhald húsa og sumarhúsa með góðum árangri, í átakinu Allir vinna; endurgreitt virðisaukaskatt, gefið endurgreiðslur af tekjuskatti sömuleiðis í tengslum við þá. Það hefur verið hluti af því að efla atvinnustarfsemi í landinu og verðmætasköpun og halda hjólunum gangandi í gegnum erfiðustu tímana. Ég get upplýst að fram hefur farið mjög jákvæð umfjöllun í nefndinni um tillögur um að gera svipaða hluti hvað varðar varmadælur sem eru þróun í tækni sem menn hafa verið að skoða, kannski einkanlega á köldum svæðum, sem búa við mikinn húshitunarkostnað. Það getur orðið til góðs fyrir þá sem á þeim svæðum búa og búa við mjög háan húshitunarkostnað og líka fyrir þjóðarbúið vegna þess að það hefur jákvæð þjóðhagsleg áhrif. Fjölmörg önnur slík atriði eigum við og getum skoðað. Það er mikið fagnaðarefni að við skulum hafa lagt að baki erfiðasta hjallann í efnahagsmálunum í rústabjörguninni ef svo má segja og að nú megi leggja ríkari áherslu á sóknaraðgerðir eins og þessar að efla og styrkja þær atvinnugreinar sem við teljum að eigi vaxtarmöguleika með því að hlúa sem allra best að þeim í almennum skilyrðum.

Hvað varðar hærra og lægra virðisaukaskattsþrepið er svo sem ekkert einhlítt í því. Þjóðir sem hafa notið mikillar velgengni í efnahagsmálum í gegnum tíðina búa við svipað kerfi og (Forseti hringir.) við og sums staðar er meiri munur á milli þrepa en hér er, svo sem úti á landi.