139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð. Það var sérstaklega eitt sem vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns, að hv. þingmaður telur rétt að nú sé runninn upp tími skattalækkana, skattalækkanir séu að hefjast. Hefur hv. þingmaður, sem hafði meiri innsýn í hugarfar ríkisstjórnarflokkanna, einhverjar upplýsingar um hvort slíkt ferli sé að hefjast? Hefur það verið rætt í efnahags- og skattanefnd? Hvenær má þá búast við fréttum um það?

Ég gat ekki heyrt, þegar ég fór í andsvar við hv. þm. Helga Hjörvar og spurði svipaðrar spurningar um hvort vænta væri annarra viðbragða í þá átt að lækka skatta en þessa ívilnun hér, að svo væri. Ég tel, eins og fram hefur komið í máli mínu í dag, að skattar á Íslandi séu of háir. Afleiðingar þess eru að svarta hagkerfið er að stækka og hefur gert það mjög hratt á undanförnu ári.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því að svarta hagkerfið fari stækkandi og hvort hv. þingmaður telji ekki rétt að efnahags- og skattanefnd ræði það og komi með einhverjar tillögur um hvernig eigi að bregðast við því.