139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eins stutt og ég get, ég er bara kominn til að skrifa upp á þetta góða frumvarp úr nefndinni og þakka fyrir það. Það eru nokkur ár síðan við hófum átak að reyna að koma rafbókum og vefbókum á sinn eðlilega stað í virðisaukaskattskerfinu og tollskránni. Þetta var nú þannig að þegar við byrjuðum, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar sem er líka 1. flutningsmaður þessa frumvarps, voru vefbækur að vísu til en rafbækur nánast óþekktar á Íslandi. Meðal annars vorum við í vandræðum með orð yfir það sem nú eru kallaðar lestölvur á íslensku. Eitt af orðunum sem við notuðum var bókhlaða, sem var nú ekki vel heppnað en var búið til í kringum nýyrði hv. þm. Árna Johnsens um það sem á daglegu máli heitir ipod sem var tónhlaða.

Það er ákaflega ánægjulegt að sjá mál af þessu tagi fá framgang og verða til upp úr þingmálum sem hafa fengið mikinn stuðning, bæði á þinginu og annars staðar. Í núverandi formi voru þetta tvö mál, annars vegar frumvarp um virðisaukaskatt á rafbækur o.fl. og hins vegar þingsályktunartillaga um breytta skattheimtu af lestölvum. Á þessu voru í öfugri röð hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og aðrir hv. þingmenn, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þráinn Bertelsson, Pétur H. Blöndal, Eygló Harðardóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Margrét Tryggvadóttir, Helgi Hjörvar og sá sem hér stendur, úr öllum flokkum, 10 þingmenn á báðum málum. Ég held að mér sé óhætt að þakka fyrir þeirra hönd fyrir þann stuðning sem þetta mál hefur fengið í hinni háu efnahags- og viðskiptanefnd og vonast til þess að hann endurvarpist hér á þinginu.

Formaður nefndarinnar, háttvirtur, flutti hér mjög góða framsögu sem ég ætla ekki að fara að endurtaka. Fyrir þessu eru menningarrök, samkeppnisrök og kannski fjárhagsleg rök líka fyrir skóla og nemendur og fjölskyldur þeirra. Það er ein framtíðarsviðsmynd að nemendur, a.m.k. í grunnskólum og kannski framhaldsskólum líka, hafi með sér fyrst og fremst lestölvu í skólann í skólatöskunni sinni en burðist ekki með 10–15 kíló af bókum. Það verður að sjálfsögðu ódýrara menntakerfi með þeim hætti þó að ekki séu nefnd önnur rök svo sem þau að lestölvurnar geta gagnast ágætlega fólki sem glímir við erfiðleika í lestri, lesblindu o.s.frv. Þar er hægt að stækka letur og breyta texta með ýmsum hætti sem ekki er hægt að gera við venjulegar bækur, þann miðil sem á sér þó lengsta sögu af fjölmiðlum okkar af því að við erum nú hætt að mestu að skrifa skinnhandritin, prentbækur á ég við. Fleiri rök mætti nefna til en þarf ekki miðað við þær viðtökur sem þetta mál fær hér.

Ég vil aðeins segja um tæknileg efni, skattaefni, að það er örugglega rétt hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að Albert Guðmundsson fjármálaráðherra, sællar minningar þeim sem hann þekktu og kunnu að meta hann þó að starfslok hans í því embætti hefðu mátt vera fegurri, hafi fellt niður aðflutningsgjöld eða staðið í fararbroddi fyrir að fella niður aðflutningsgjöld af tölvum. Ég hygg að það hafi verið í tíð Gunnars Thoroddsens sem forsætisráðherra sem felldur var niður söluskattur sem þá var til á tölvum og það var Ragnar Arnalds sem var fjármálaráðherra þá. Það er kannski fallegt að hafa það þannig því að þá komu að málinu menn úr nokkurn veginn öllu hinu pólitíska litrófi þeirra tíma. En ég held að þetta hafi verið mjög skynsamlegt og held það með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að þetta hafi verið einn grunnurinn að því hve tölvuvæðing á Íslandi gekk vel og hvað við erum nú framarlega á því sviði um allt samfélagið.

Ég ætla ekki að skipta mér mikið af þeirri almennu skattaumræðu sem hér var fitjað upp á í tengslum við þetta mál nema taka undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að auðvitað er þetta virðisaukaskattskerfi erfitt. Það eru þrjú skattþrep. Það er 0% skattur, 7% skattur og 25,5% skattur sem er heimsmet í skattlagningu af þessu tagi. Öll rök segja okkur, reynsla allra annarra þjóða segir okkur að við eigum að hafa virðisaukaskattinn lægri, að ef við viljum vera með tvö þrep eða þrjú eigi að vera minni munur á þeim.

Í Bandaríkjunum eru menn ekki með virðisaukaskatt heldur söluskatt. Hann er fylkisskattur þannig að hann kemur inn til hvers fylkis, ég held að hann sé ekki til alríkisins. Það er þingið í hverju fylki eða hverju ríki sem ákveður þetta. Þar hafa menn búið sér til ákveðna formúlu fyrir því hvað skatturinn má vera mikið öðruvísi í einu fylki en öðru eftir því hvernig gengur að keyra um með sígarettur, tóbak og aðra þá vöru sem helst er reynt að fara með fram hjá skattinum. Ég man ekki hver hún er en er held ég í kringum 3–5% eftir fjarlægðum í fylkjum Bandaríkjanna.

Þetta er vandamál hjá okkur og þetta er líka pólitískt vandamál vegna þess að skattaumræðan mótast nokkuð af því á Íslandi að menn hafa sett sér kenningar, jafnvel kreddur um skattana, einblína á eina tegund skatts sem er tekjuskattur af því að það er svo auðvelt að tala við almenning um tekjuskatt en gleyma öðrum tegundum skatta þó að almenningur borgi þá, þó að hann borgi jafnvel meira í skatt eftir þeirri leið en í tekjuskattinum sem á við um mjög stóran hluta almennings, um töluverðan hluta íbúa í landinu, þá sem eru nálægt skattleysismörkum eða jafnvel undir.

Það er kannski meðal annars þess vegna sem við erum með þetta heimsmet í virðisaukaskatti, 25,5%. Við náum ekki saman um það í pólitíkinni að reyna að lækka þetta. Ég kynntist þessum málum þegar ég vann í fjármálaráðuneytinu hjá ágætum ráðherra sem enn leggur fram sína góðu hugsun til íslenskra þjóðmála og ég vona að verði ekkert lát á því.

Mín hugsun í þessu efni er sú að við verðum kannski í kjölfar endurreisnar hér upp úr kreppunni og hruninu að reyna að ná pólitískri samstöðu um það í sem flestum flokkum að lækka hærra virðisaukaskattsþrepið úr 25,5 niður í segjum í byrjun 17–18, hækka þá hugsanlega lægra þrepið að einhverju leyti og reyna með samkomulagi um nokkur skref í þessu, tímasett skref kannski til 15, 20 ára, að ná okkur í tveggja þrepa kerfi þar sem munurinn er ekki mjög mikill og með það að markmiði að hafa bara eitt þrep og engar undanþágur. Þannig að við mundum þá reyna að styrkja þá starfsemi sem okkur finnst þess virði, af m.a. menningarástæðum, með öðrum hætti en lægra virðisaukaskattsþrepi.

Ég veit að þetta er framtíðarmúsík en af því að það er verið að fella niður eða verið að lækka músíkina hérna í neðra virðisaukaskattsþrep er kannski rétt að framtíðarmúsíkin fái þar sitt pláss líka. Ég legg þetta fram til þeirrar almennu skattaumræðu sem hér fór fram í tengslum við þetta góða frumvarp, sem ég vona að verði sem allra, allra fyrst að lögum, og þakka efnahags- og skattanefnd aftur og sérstaklega formanni hennar, hinum ágæta og hv. þingmanni Helga Hjörvar.