139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir alveg ágæta ræðu og lyftist á mér brúnin eftir því sem leið á ræðuna og var ég eiginlega orðinn glaður undir lokin þegar hv. þingmaður fór að tala um að koma með eitt þrep í virðisaukaskattinum. Það er búið að vera draumur minn í áratugi en gengið seint. Nú sé ég að ég er kominn með bandamann og kannski fer eitthvað að rætast úr. (HHj: Draumar þínir, Pétur.) Draumar mínir, já, þeir eru margir og margvíslegir.

Hv. þingmaður talaði í gátum. Hann sagðist hafa unnið með einhverjum ráðherra sem væri virkur. Mér þætti vænt um að fá kannski nafnið á þeim ágæta manni sem er virkur og var ráðherra eitt sinn.

Það sem mig langaði til að ræða við hv. þingmann er vandamál nútímans, sem um leið er mjög ánægjulegt vandamál, og það er rafrænn flutningur á gögnum, þ.e. að elektrónur er farnar að flytja hugsun, því að allt er þetta hugsun — forrit er ekkert annað en hugsun — á milli fólks. Við erum að skattleggja þetta mjög mismunandi og það er mjög misauðvelt að ná í þennan hugbúnað eða hvað á að kalla það.

Ég vil spyrja hann: Nú er menntakerfið skattfrjálst, það er reyndar ekki 0% skattur heldur er það algjörlega undanþegið bæði inn- og útskatti, en kennsluforrit sem gera eiginlega það sama og menntakerfið eru skattlögð með 25,5% og líka eftir þessa breytingu. Ég held að eftir nokkur ár eða ég vona það, það er einn af draumum mínum, að kennsla fari meira og minna fram með aðstoð kennsluforrita sem eru gagnvirk. Er ekki mjög brýnt — af því að ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á menntakerfinu — að laga skattlagningu þessa hluta menntakerfisins sem er gagnvirkt kennsluforrit sem er að ryðja sér til rúms?