139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski ánægjulegt vandamál fyrir skattkerfið, og fyrir þá sem hafa ég segi nú ekki áhuga á skattheimtu en hafa einhverja nasasjón af þeim hlutum, að skattviðfangið er að breytast og að ýmsu leyti að renna saman. Þeir miðlar sem við erum að tala um eru orðnir einn. Við erum sum sé að tala hér annars vegar um bækur, prentbækur, og hins vegar um raf- og vefbækur og við erum að tala um tónlist í margs konar formi. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessi kennsluforrit eru í eðli sínu ekkert öðruvísi en kennslubækur með æfingaheftum sem við kynntumst, ég og hv. þingmaður, í okkar grunnnámi. Í þetta þarf auðvitað að fara og taka rækilega á þessu, líta á þróunina í öðrum löndum og reyna að átta sig á hvað er skynsamlegast að gera.

Við erum hér að taka ákveðið frumkvæði. Evrópusambandið hefur dregið lappirnar í þessu við mikla óánægju menningarmanna, einkum bókaútgefenda og rithöfunda þar og tónlistarmanna. Það er þannig með skattinn, af því að ég lærði svolítið um hann þegar ég var í þessum fríháskóla í fjármálaráðuneytinu hjá hinum ágæta ráðherra sem Pétur Blöndal vill fá að vita hvað heitir en getur bara litið í æviskrá mína á netinu til að vita það. Auðvitað er það þannig, sérstaklega með söluskatt, að þegar hlutirnir tengjast, skattviðföngin tengjast er munurinn oft mjög óljós og það er eitt helsta verkefni embættismanna í skattkerfinu að reyna að skýra þar línur og ekki að furða þó að þeir séu íhaldssamir í því. Auðvitað ber okkur að fara mjög varlega í þeim efnum. (Forseti hringir.) Ég tel að þetta sé kannski næsta skref sem hv. þingmaður talar hér um og við eigum kannski að hvíla í ánægju okkar með þetta skref áður en við byrjum á því.