139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau andsvör sem fóru fram hér á undan minntu helst á spurningaleikinn „Hver er maðurinn?“. Ég var orðin svo spennt að ég fór til hliðar og hitti vin minn Google, alheimsinternetið, sem segir mér að umræddur maður hafi verið Ólafur Ragnar Grímsson sem nú er forseti. Svo að það sé upplýst hér og ég vona að það sé rétt svar. Ég bíð spennt eftir verðlaununum.

Hæstv. forseti. Þetta var mjög athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Ég fagna þeirri umræðu sem hann hóf varðandi virðisaukaskattinn. Það er gott að vita að í stjórnarliðinu er fólk sem hugsar djúpt með hvaða hætti megi einfalda skattkerfið og er með framtíðarsýn. Hv. þingmaður sagði að þetta væri svona framtíðarmúsík sem ætti kannski ekki heima hérna núna, en ég tel einmitt að við verðum að leggja fram einhverjar framtíðarhugmyndir, fá einhverja framtíðarsýn á það með hvaða hætti við sjáum skattkerfið þróast. Það á ekki síst við nú þegar það lítur út fyrir að stjórnmálamenn hafi engar hugmyndir aðrar en þær að hækka skatta. Ég held að það sé einmitt til þess fallið að vekja von hjá fólki um betri tíð og bjartari framtíð að leggja fram hugmyndir um það með hvaða hætti skattkerfið eigi að þróast. Þess vegna hvet ég hv. þingmann einfaldlega til dáða innan síns þingflokks til að koma slíkum pælingum áfram.

Í kjölfarið langar mig að spyrja hv. þingmann, af því það kom fram hér í fyrri ræðum þingmanna, þá vísa ég í hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að nú væri runninn upp tími skattalækkana, hvort einhver slík áform um lækkun virðisaukaskattsins, þá sérstaklega efra þrepsins, séu í pípunum hjá stjórnarliðinu.