139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[15:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enn fremur lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd sem ég sit í.

Hér koma fram ýmsar skattalækkanir sem ég hlýt að gleðjast yfir enda gleðst ég yfirleitt yfir skattalækkunum og fylgi þeirri trú minni að lægri skattar leiði oft á tíðum til hærri skatttekna ríkissjóðs. Ég ætla að byrja á því að fara yfir það. Það sem frumvarpið gengur út á er að breyta virðisaukaskatti á bókum og ígildi bóka, og enn fremur að taka upp skatt á aðila sem selja rafrænt vöru og þjónustu til Íslands. Á því hefur ekki verið form á hingað til en mér skilst að það hafi verið skattskylt, spurningin hafi bara verið hver ætti að borga skattinn. Þetta er mjög vaxandi grein og mun ég koma inn á það líka hér á eftir.

Við hv. þingmenn erum að byggja upp þjóðfélag. Við setjum á skatta og ákveðum reglur um bætur. Annars vegar eru teknar tekjur og eignir skattgreiðandans og honum gert að greiða hluta af þeim í ríkissjóð. Hins vegar er ákveðið á hvern hátt einstaklingar geti fengið tekjur og eignir frá þessum sama ríkissjóði á formi bóta, vonandi yfirleitt þeir sem á því þurfa að halda.

Í þessu ferli öllu hafa menn tilhneigingu til að taka tillit til alls konar sjónarmiða. Maður sem er ríkur á að borga hærri skatta en sá sem er fátækur, það þarf að vernda börn sérstaklega o.s.frv. Skattkerfið er því flókið, sérstaklega hefur það orðið verulega flókið síðustu tvö, þrjú árin og má jafnvel líta svo á að það sé eins og markmið hjá löggjafanum að flækja kerfið upp að því sem kerfið þolir.

Í bótakerfinu þarf líka að horfa til ýmissa þátta. Hver þarf á bótum að halda? Er hann með háar tekjur, er hann með miklar eignir, borgar hann mikla vexti o.s.frv.? Bótakerfin taka mið af því. Því miður hefur tilhneigingin á þeim bæ líka verið í þá átt að kerfið er alltaf að verða flóknara og flóknara. Mér liggur við að segja að bótakerfið sé orðið þannig að enginn átti sig lengur á öllum skúffunum í þeirri kommóðu. Einn maður skilur kannski þátt Tryggingastofnunar, annar skilur þátt Íbúðalánasjóðs og þriðji skilur þátt Lánasjóðs íslenskra námsmanna en ég fullyrði að enginn skilur allt heila kerfið sem þó grípur saman hjá mörgum einstaklingum. Þetta er mjög miður. Auðvitað á þjóðfélagið að vera þannig að fólk geti skilið það.

Ef við lítum á skattamálin sérstaklega, og við ræðum hér um lækkun á sköttum, er þar líka um mjög skrautlegan garð að ræða. Ég efast um að margir hafi yfirsýn yfir hvernig vörugjöldum er háttað í þjóðfélaginu. Ég held meira að segja að það gangi illa að einfalda vörugjaldakerfið af því að enginn skilur það í hörgul nema kannski þeir sem sjá um framkvæmd þess og þeir skilja það kannski oft á tíðum með eigin skilningi, eins og ég kem inn á hér á eftir. Við höfum tolla og vörugjöld og svo erum við með virðisaukaskatt ofan á allt saman sem leggst ofan á tollana, ofan á vörugjöldin og ofan á flutningskostnað og tryggingar og sitthvað fleira þannig að á endanum er neytandinn að borga heilan frumskóg af tollum, oftast nær án þess að vita það.

Til þess að gera þetta allt saman erfiðara fyrir skattstjóra allra landa erum við farin að versla heilmikið með óefnislegar eignir og tekjur, rafrænar eignir og tekjur á formi elektróna sem þjóta með eldingshraða yfir hnöttinn og eru að verða eiginlega öllu mannkyninu aðgengilegar. Þá vakna upp spurningar. Hingað til var auðvelt að segja: Olía var skattlögð svona og svona, þarna var ákveðið efni sem hægt var að greina, kol, stál, gúmmí o.s.frv. Allt var þetta efni sem hægt var að sjá og vigta, taka á og finna fyrir. En allt í einu erum við farin að skattleggja hugbúnað og hugvit sem er mjög verðmætt. Ég hef oft sagt að aðalauðlegð hverrar þjóðar er mannauðurinn en ekki svokallaðar auðlindir. Þær eru ónothæfar þangað til mannauðurinn kemur að þeim.

Núna stöndum við frammi fyrir þeim vanda í öllum löndum heims hvernig eigi að skattleggja hluti sem ekki er hægt að taka á og ekki er hægt að sjá og þjóta fram hjá með þvílíkum hraða að það er varla hægt að taka á því nema með mælitækjum. Það er hægt að hlera slíkar sendingar en ég hugsa að það sé mjög erfitt að vita hvort ákveðinn stubbur af upplýsingum sé forrit, ljósmynd eða eitthvað annað því að hægt er að dulkóða allt heila dótið. Vandi skattstjóra verður því sífellt meiri. Í þessu máli blasir við okkur að fyrir nokkrum árum var ákveðið að hafa hljóðbækur og aðrar slíkar bækur, rafrænar bækur, í lægra virðisaukaskattsþrepi sem nú er 7%, á móti hærra þrepinu sem er 25,5%. Þá gerist það að einhverjir embættismenn ákveða að netið sé ekki rafrænn flutningur á gögnum. Það var ákvörðun þeirra og bækur sem eru hljóðritaðar yfir netið bera því 25,5% skatt. Ef maður setur þær yfir á minniskubb og fer með þær á staðinn er skatturinn 7%. Þetta sýnir bara í hnotskurn hvað vandinn er mikill og hversu erfitt er að taka á svona hlutum. Bækur sem eru ekki með ritað mál eins og t.d. ljósmyndabækur eða tónbækur o.s.frv., ef ekki er ritaður stafur á þeim, eru ekki lengur bækur. Þá fara þær upp í 25,5% virðisaukaskatt sem sýnir enn einu sinni hvað þetta er erfitt viðureignar.

Svo ætla ég rétt aðeins, frú forseti, að benda á hvernig þetta getur orðið. Ég hugsa að rafrænar bækur, hvort sem þær eru á minniskubb eða hvernig sem það nú er, hætti að vera bækur í eiginlegum skilningi. Inn í þeim eru hreyfimyndir, í staðinn fyrir að hafa fastar myndir eru kvikmyndir. Bækurnar verða gagnvirkar, þ.e. í bókinni er einhver spurning sem lesandinn svarar og þá bregst bókin við á annan hátt en ef hann svarar öðruvísi. Þetta er því orðið gagnvirkni og þá er spurningin: Er þetta bók eða er þetta ekki bók? Og skattstjórar þessa heims verða sífellt í meiri vanda að ákveða hvað er bók og hvað er ekki bók.

Svo kemur að kennsluefni á netinu — ég vona að það verði sett inn á netið — frábært kennsluefni þar sem bestu kennarar í heiminum eða hvers lands kenna. Nemendur, sem sitja einhvers staðar úti um allan heim, geta brugðist við með því að svara spurningu kennarans eða leyst einhverjar þrautir eða lært einhverja reglu, t.d. í eðlisfræði, og þá bregst forritið við með því að koma með nýja spurningu. Ef nemandinn svarar rangt er hann spurður aftur eða þá kemur ítarefni um efnið þannig að hann endi á því að skilja það. Svona námsefni getur, og ég vona að það geri það, kollvarpað kennsluaðferðum í heiminum og gert kennsluna miklu markvissari. Þá er spurningin: Er svona kennsluforrit kennsla? Kennsla er nefnilega undanþegin virðisaukaskatti á Íslandi, sem er annað en ef virðisaukaskatturinn væri núll vegna þess að innskatturinn kemur þá ekki til frádráttar. Þá lenda skattinnheimtumenn, að minnsta kosti á Íslandi, í enn meiri vanda. Er þetta forrit, sem er í rauninni kennsla, hluti af menntakerfinu sem á að vera skattfrjálst eða undanþegið virðisaukaskatti? Þetta litla frumvarp býður því upp á að margir mismunandi þættir séu skoðaðir. Við þurfum líka að hafa framkvæmdaraðila í huga þegar við samþykkjum lög þannig að ekki sé ómögulegt að framkvæma lögin.

Ég tel að hv. efnahags- og skattanefnd þurfi að ganga lengra, hún þurfi að skoða nákvæmlega allt þetta svið um óefnislegar tekjur, gjöld og vörusölu, sölu á óefnislegum hlutum sem skipta um eigendur. Í þessu sambandi vil ég benda á að ríkustu menn heims eru þeir sem hafa búið til óefnislegar eignir. Þeir hafa eiginlega ekki selt neitt sem hægt er að vigta í kílóum, þeir hafa varla selt eitt einasta kíló nema umbúðirnar utan um forritin og annað slíkt. Við þurfum að hugleiða í hvaða vanda framkvæmdaraðilarnir eru, þeir sem eiga að innheimta skattinn fyrir ríkissjóð. Getum við búið til kerfi sem er þess eðlis að þeir ráði þokkalega við það?

Þetta vildi ég segja út af þessu frumvarpi. Í 2. gr. er verið að bæta við öllum heiminum sem seljanda hugbúnaðar. Við erum að bæta við óteljandi skattgreiðendum — kannski ekki óteljandi en þeir gætu verið nokkur hundruð milljónir. Það er nefnilega það sem er að gerast núna, það alnýjasta, maður getur keypt forrit á símann sinn. Ég keypti eitt um daginn á 7 evrur og það er skattskylt. Spurningin er bara hver á að borga. Í þessu frumvarpi er sagt að framleiðandinn, seljandinn, eigi að borga. Spurning mín er: Frú forseti, veit hann af því? Veit þessi seljandi einhvers staðar úti í heimi sem framleiðir svona lítil forrit, af því? Stóru seljendurnir, sem eru orðnir mjög umsvifamiklir í viðskiptum yfir netið og í heimsviðskiptum yfirleitt, þeir vita af því. Þeir hafa jafnvel, að því er mér er sagt, þrýst á að fá að borga skattinum eitthvað vegna þess að þeir vilja gæta jafnræðis á milli viðskiptamanna sinna þannig að maður sem kaupir hjá þeim vöru og borgar skatt sé jafnsettur öðrum sem kaupir hjá þeim vöru en er í öðru landi þar sem ekki er borgaður skattur, þó að það eigi að borga hann. Þessi 2. gr. er því jákvæð að því leyti að verið er að jafna aðstöðu milli seljenda. En ég á dálítið erfitt með að sjá fyrir mér að einhver aðili sem er í Singapúr og framleiðir lítinn hugbúnað fyrir síma og selur hann á 3 evrur eða 5 júan, viti af því að hann eigi að borga 25,5% virðisaukaskatt eða, eftir þessa breytingu, 7% virðisaukaskatt á Íslandi. Skatturinn getur verið ýmist 7% eða 25,5% þannig að hann þarf náttúrlega að öðlast um þetta vitneskju.

Svo eru lagðar til hérna nokkrar breytingar á tollskrárnúmerum og eins og fyrri daginn hef ég ekki hugmynd um hvað er á bak við það.