139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni kærlega fyrir spurninguna. Jú, það er nú svo að umhverfisnefnd bárust ansi margar umsagnir í máli þessu en það er einhvern veginn svo með ríkisstjórnarflokkana að það er ekkert endilega verið að horfa til þeirra umsagna sem ekki passa inn í málin hverju sinni. Íslenskur stjórnsýsluréttur er afar skýr og klár og við búum við nokkuð skýr stjórnsýslulög sem úrskurðarnefndir undir venjulegum kringumstæðum falla undir. Hér er lagt til að aftengja íslenskan stjórnsýslurétt í þeim þremur atriðum sem ég fór yfir með aðildinni að málunum. Það sem Samband íslenskra sveitarfélaga benti á, að hægt sé að kæra á mörgum stigum eins og þingmaðurinn fór yfir, veikir að sjálfsögðu stöðu þeirra aðila sem koma að málinu hverju sinni því að vanhæfisreglur eru mjög skýrar. Það hefur færst í vöxt, eins og til dæmis hjá dómstólum undanfarin ár, að ekki sé endilega verið að takast á um efnisatriði dómsmála heldur fyrst og fremst verið að líta til formsatriða. Eins er það hjá kærunefndum, sífellt stærri hluti þeirra mála sem fara þangað snýst um formsatriði eins og vanhæfi. Á það bendir Samband íslenskra sveitarfélaga svo sannarlega og það er rétt að hafa áhyggjur af því af því að þetta er ekki það fjölmenn nefnd. Ef sama málið kemur fyrir á mörgum stigum ákvörðunarinnar er alveg ljóst að á einhverjum stigum verður vanhæfi til staðar.

Ég vona að þetta hafi svarað spurningunni. En mér finnst frumvarpið allt vera vanbúið að þessu leyti og spurningin er: Hvað gerist ef lögin taka gildi með þetta opna aðildarákvæði inni?