139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem umhverfisnefnd afgreiddi í vor. Nú er komið fram í september og eins og umræðan hefur verið í þinginu held ég að við hljótum að ræða það í framhaldinu hversu vel heppnað þetta haustþing er, þ.e. að menn séu að taka upp mál sem voru ekki afgreidd á vorþinginu. Mér sýnist nefnilega að hjá sumum hv. þingmönnum hafi eitthvað snjóað yfir minnið og kannski ekki gott að hafa ekki samfellu í störfum nefnda á Alþingi og hafa nokkurra mánaða bil milli þess sem menn eru að fara yfir málin og afgreiða þau, eins og gert er ráð fyrir af hálfu meiri hlutans og hefur verið lýst yfir.

Eins og ágætlega hefur verið farið yfir þá er gert ráð fyrir tveimur meginbreytingum með umræddu frumvarpi, eins og segir, með leyfi forseta:

„Annars vegar er gert ráð fyrir stofnun nýrrar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafa skal það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála á sviði umhverfis- og auðlindamála. Á hin nýja nefnd meðal annars að taka við hlutverki úrskurðarnefndar í skipulags- og byggingarmálum og úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarna. Hins vegar er gert ráð fyrir að reglur um málsaðild að kærumálum sem heyra undir valdsvið nefndarinnar verði víkkaðar verulega út, þannig að í raun muni hver sem er geta kært ákvarðanir stjórnvalda sem varða framkvæmdir og undirbúning þeirra með ýmsum hætti.“

Frumvarpið, verði það að lögum eins og ég les það hér, felur þá í sér heilmikla opnun að því er varðar undirbúning ýmissa framkvæmda. Við getum nefnt framkvæmdir sem skipta miklu máli í atvinnulegu tilliti. Samkvæmt orðanna hljóðan er verið að hleypa að í ferlinu, áður en viðkomandi hugmyndir eru komnar á framkvæmdastig, aðilum sem málið snertir ekki beint, aðilum sem búa jafnvel ekki hér á landi. Þeir geta sem sagt kært viðkomandi framkvæmdir í því ferli. Þar með er hugsanlega verið að opna fyrir einhverja flóðgátt sem við höfum kannski ekki gert okkur grein fyrir hvert muni leiða.

Ef það verður þannig — nú hefur manni sýnst í mörgum mikilvægum málum á sviði atvinnumála að enn sé verið að flækja það ferli með því að hleypa að aðilum sem jafnvel hafa enga aðkomu að málinu, eiga engra hagsmuna að gæta, búa jafnvel ekki hér á landi — tel ég að við þurfum að ígrunda þessi mál miklu betur en gert hefur verið hér. Áhrifin af frumvarpinu hafa sem sagt ekki verið metin. Ég vil leyfa mér að efast um að fullur meiri hluti sé hjá ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fyrir þessu máli. Ef við eigum að draga lærdóm af sögunni og þeim seinagangi sem hefur orðið við uppbyggingu ýmissa atvinnumála — einstaklingar og sveitarfélög hafa verið að þrýsta á um að hraða framkvæmdum þannig að við getum farið að skapa störf í samfélagi okkar og hætt að horfa upp á vaxandi atvinnuleysi. Því miður hefur reyndin verið sú á undangengnum árum — og ég held að við þekkjum það, við hæstv. forseti og ég sé hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, hversu rólega hefur gengið, ef maður á að nota svo nett orð, í uppbyggingu atvinnumála á norðausturhorni landsins. Þar er nú þekktur úrskurður þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, um sameiginlegt umhverfismat, sem átti ekki að seinka framkvæmdum á norðausturhorni landsins nema um nokkra daga að sögn hæstv. iðnaðarráðherra. En hver er staðreyndin? Með því að flækja ferlið eins og þá var gert hefur orðið seinkun, ekki talin í vikum eða mánuðum heldur í á annað ár.

Ef við ætlum að halda áfram á þeirri braut að flækja það ferli sem um er að ræða þá getur það leitt til þess að við verðum af mikilvægri atvinnuuppbyggingu — við sem höfum horft upp á það allt frá hruni að störfum hefur fækkað, um 24–25 þús. eins og sumir hafa haldið fram — og að kerfið verði enn svifaseinna en ella. Ég tel því nauðsynlegt að þetta mál verði rætt mjög ítarlega og menn geri sér grein fyrir því hvaða áhrif lagasetning sem þessi mun hafa.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að heyra áherslur einstakra stjórnarþingmanna þegar kemur að þessu máli. Eins og ég sagði áðan þá trúi ég því varla að einhugur verði um það innan stjórnarmeirihlutans að koma jafnviðamiklu máli í gegn á þessu septemberþingi. Verði þetta samþykkt gæti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í uppbyggingu ýmissa tækifæra á sviði atvinnumála í okkar ágæta landi á tímum þegar við þurfum að spýta í lófana og skapa störf, minnka atvinnuleysi og auka tekjur ríkis og sveitarfélaga. Leiðum hugann að því hvað við höfum verið að greiða í atvinnuleysisbætur á hverju ári allt frá hruni. Um 25 milljarða kr. á ári. Mig minnir að tæplega 80 milljarðar hafi farið í það frá hruni að greiða atvinnuleysisbætur, meðal annars vegna þess að framkvæmdahraði margra mikilvægra mála er snerta atvinnuuppbyggingu hefur verið of lítill. Ég tel að við séum á rangri leið ef menn ætla að samþykkja frumvarp í þinginu sem mun kannski leiða til þess að allt ferlið verði tafsamara en ella.

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar þá er það galli á störfum Alþingis í dag, með hliðsjón af reynslunni, að mál eins og þetta sé ekki afgreitt í einni samfellu. Nú hafa störf þingsins legið niðri um tveggja til þriggja mánaða skeið og það krefst heilmikillar upprifjunar að koma aftur að þessu. Betra væri að reyna að afgreiða málið í ákveðinni samfellu eins og margar ræður sem hér hafa verið fluttar hafa borið merki um.

Það er ljóst að þetta mál hefur verið afgreitt í ágreiningi í umhverfisnefnd og það er ekki gott þegar slíkt gerist. Það er því eðlilegt að þeir sem hafa látið sig málið varða — og ég sé að hér er álit frá minni hluta umhverfisnefndar — fari í nokkrum orðum yfir þá vinnu og þær umsagnir sem liggja fyrir í þessari umræðu. Eins og þar er bent á getur frumvarpið leitt til seinkunar. Menn telja að það sé ekki nægilega undirbúið því að áhrif þess á uppbyggingu ýmissa atvinnumála í landinu hafi ekki verið metin. Hver verða áhrifin ef mörg hundruð kærur berast vegna framkvæmda, til að mynda á norðausturhorni landsins, frá fólki sem býr þar ekki, á ekki land þar, hefur enga aðkomu að atvinnuuppbyggingu, býr jafnvel ekki á landinu?

Ef við ætlum að fara að setja slíkt í lög, sem mun kannski leiða til þess að atvinnuuppbyggingu á því svæði muni seinka um marga mánuði jafnvel ár — það tekur ákveðinn tíma að fara yfir margar kærur, hvað þá ef þær eru orðnar að tugum eða hundruðum. Ég hefði haldið að þá væru málefnaleg rök fyrir því, og ekki er ég á móti því, að þeir aðilar sem telja sig eiga hagsmuna að gæta gagnvart viðkomandi uppbyggingaráformum eigi aðkomu að ferli eins og þessu. En ef útvíkka á þetta ferli með þeim hætti sem hér er rætt um, ef á að opna fyrir það að fólk sem er erlendis og hefur enga beina hagsmuni af þeim framkvæmdum sem á að ráðast í í hvert sinn, geti lagt fram kæru, þá getur það leitt til mikillar seinkunar. Og ekki er á það bætandi.

Ég legg til, herra forseti, að þetta mál verði rætt betur á vettvangi umhverfisnefndar. Geta menn ekki sest niður og gert úrslitatilraun til að ræða málin og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu? Við erum að ræða um mjög stórt og brýnt hagsmunamál sem snertir alla landsmenn, snertir stöðu ríkissjóðs, stöðu sveitarfélaga, stöðu heimila í landinu og fyrirtækja. Ef Alþingi ætlar á þessu haustþingi, þessum stubbi, að klára þetta mál á þennan hátt tel ég, miðað við þær umsagnir sem ég hef lesið og álit, að verið sé að leggja enn einn steininn í götu sterkara atvinnulífs á Íslandi. Það er einmitt sú slóð sem við eigum ekki að feta. Við eigum að hvetja til fjárfestinga hér á landi. Við eigum ekki að samþykkja lagafrumvörp sem leiða til þess að ferlið verði tafsamara en ella. Við eigum einmitt að horfa í hina áttina. Við eigum að beita okkur fyrir því að hafa umhverfi atvinnulífsins á þann veg að það verði til að örva fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Ef þetta verður að veruleika í sinni svörtustu mynd er ég mjög hræddur um að við séum einmitt að fara þá leið sem við eigum ekki að vera að feta þessi missirin.

Það er svo sem ekki margt sem kemur mér orðið á óvart er varðar atvinnustefnu núverandi ríkisstjórnar. Sem betur fer talar einn og einn aðili innan ríkisstjórnarflokkanna fyrir uppbyggingu í atvinnumálum, og er það vel. En því miður er þar einungis um hrópandann í eyðimörkinni að ræða. Þau öfl sem vilja fara „mjög varlega“, vægast sagt, ef þau vilja þá eitthvað gera í uppbyggingu á vissum atvinnugreinum, hafa yfirhöndina þegar kemur að málefnaáherslum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Og það er grátlegt í ljósi þess að hringinn í kringum landið sjáum við tækifæri blasa við á öllum sviðum atvinnulífsins. Við getum nefnt málefni sjávarútvegsfyrirtækjanna, óvissan sem hangir yfir þeirri atvinnugrein hefur leitt til þess að fjárfesting hefur nær engin verið í eitt og hálft ár, sem hefði annars í stöðugu ástandi orðið tugir milljarðar kr.

Við getum horft á fleira. Fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Má nefna orðið virkjanir við annan stjórnarflokkinn? Ég held ekki, ekki enn þá. Það er enn eitthvert 2007-ástand í gangi hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við þurfum að skapa verðmæti og við þurfum að skapa störf. Hver eru skilaboðin þegar áhugasamir fjárfestar koma og vilja fjárfesta í orkufrekum iðnaði hér á landi? Skilaboðin eru þau að annar stjórnarflokkurinn sé lítt hrifinn af slíku. Það hefur líka komið fram að hluti stjórnarliðsins er að auki á móti erlendri fjárfestingu hér á landi og hefur jafnvel talað um að þjóðnýta þurfi ýmis fyrirtæki. Hvernig dettur mönnum þá í hug, við slíkar aðstæður, að menn standi í biðröð til að koma með fjármagn í beina erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi? Því miður. Að við tölum ekki um breytingar á skattkerfinu, íslenska skattkerfinu sem bjó atvinnulífinu að mörgu leyti mjög góða umgjörð. Á rúmum tveimur árum hafa 100 breytingar átt sér stað á íslenska skattkerfinu þannig að það er varla líkt sjálfu sér eins og það fyrir tveimur, þremur árum. Hvernig hefur undirbúningurinn að slíkum breytingum átt sér stað?

Ég man eftir því þegar hæstv. ríkisstjórn kom fram með fjárlög vegna ársins 2010. Þá komu mjög viðamiklar breytingar, tugir breytinga, fram á Alþingi í byrjun desember. Alþingi fékk tíu daga til að undirbúa grundvallarbreytingar á íslenska skattkerfinu. Það eru náttúrlega vinnubrögð sem eru til skammar og Alþingi ekki til sóma. Enda er það svo að vegna þeirra vinnubragða sem þá voru viðhöfð hafa margar breytingar þurft að gera í efnahags- og skattanefnd. Það voru gerð mistök á mistök ofan og gefin skilaboð til fjárfesta og atvinnulífs sem hafa valdið því að fjárfesting í íslensku atvinnulífi er jafnlítil og raun ber vitni. Við þurfum að snúa af þessari braut. Ég hef heyrt ágætar ræður hér þar sem menn hafa varpað fram mjög málefnalegum spurningum. Af hverju höldum við áfram á þessari braut? Af hverju er haldið áfram á þeirri braut að þvæla kerfið, gera það erfiðara og ógagnsærra að koma af stað fjárfestingu og fjölgun starfa í þessu landi? Af hverju er verið að leggja það til? Við höfum horft upp á seinkanir í framkvæmdum, eins og ég sagði áðan, á norðausturhorni landsins. Ég spyr: Er ekki komið nóg? Er ekki kominn tími til að við förum að einfalda umhverfi íslensks atvinnulífs, að við förum að gera skattumhverfið betra, að við förum að einfalda þau ferli sem við þurfum að hafa tiltæk við undirbúning á framkvæmdatíma? Hér er verið að tala um að flækja kerfið.

Herra forseti. Við erum á rangri leið. Það er mikilvægt að horfa á heildarsamhengi hlutanna þegar kemur að fjárfestingu í íslensku atvinnulífi sem er því miður í lágmarki. Menn hafa rætt um það að fjárfesting hafi aukist frá efnahagshruninu. Guð minn góður, þó að hún hafi ekki haldið áfram að skreppa saman eftir eitt mesta efnahagshrun sem nokkur þjóð hefur gengið í gegnum. Vandinn er sá að við komumst ekki nægilega fljótt upp úr kreppunni. Það er því brýnt að þetta mál verði tekið til gagngerrar endurskoðunar af hálfu umhverfisnefndar. Ég treysti þeim hv. þingmönnum sem þar eru.

Maður veltir fyrir sér ýmsum hlutum. Er ekki hægt að takmarka með einhverjum hætti þá opnun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að allir megi koma að því að kæra ferlið þegar menn standa í uppbyggingu? Mér er fyrirmunað að skilja tilganginn með því að fólki erlendis, sem hefur enga hagsmuni af því hvort farið verður út í ákveðna framkvæmd eða ekki, verði gert heimilt að kæra slíka framkvæmd. Það gæti þá allt eins gerst að fjölmenn félagasamtök tækju sig til og sendu inn kærur í bunkavís, ekki í tugum eða hundruðum heldur svo þúsundum skipti. Það gæti nú orðið nokkurt álag á íslenska stjórnsýslu sem má ekki við miklu fyrir. Menn hafa verið að draga saman ríkisútgjöldin og maður veltir því fyrir sér hvað stofnanir sem hafa kannski ekki allt of rúm fjárráð geta búið sig undir ef slíkar hamfarir yrðu, að einhverjar þúsundir kæra mundu lenda á borði einhverrar stofnunarinnar.

Í heild sinni er frumvarpið skref í ranga átt. Ríkisstjórnin heldur áfram í þá átt að flækja kerfin, gera alla hluti seinvirkari en ella þyrfti að vera. Það mun leiða til þess að fjárfesting í íslensku atvinnulífi verður minni, uppbyggingin verður hægari og störfum fjölgar hægar en ella. Það verður aftur til þess að erfiðara verður fyrir íslenskan ríkissjóð að greiða af skuldum sínum, og líka fyrir sveitarfélögin, að ekki sé talað um þau heimili sem búa í þúsundavís við atvinnuleysi, við stökkbreyttar skuldir. Þetta frumvarp mun ekki auðvelda okkur að vinda ofan af þeirri þróun sem orðið hefur á síðustu tveimur og hálfa árinu hér á landi. Það er kominn tími til að skipta um stefnu, það er nauðsynlegt.

Hæstv. forseti. Ég hvet þingheim til að endurskoða þetta mál, slá því á frest og fara betur yfir það hvaða áhrif það getur haft á uppbyggingu íslensks samfélags. Það veitir svo sannarlega ekki af því. Fyrst og fremst er kominn tími til að skipta um stefnu en þá verður óhjákvæmilega að skipta um forustu í þessari ríkisstjórn.