139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega yfirgripsmikla ræðu. Það er tvennt sem mig langar til að spyrja hann um. Ef umrædd breytingartillaga nær fram að ganga mun hv. þingmaður þá styðja málið? Síðan er annað atriði sem ég saknaði að hann ræddi. Það er ákvæði til bráðabirgða I um starfsmenn úrskurðarnefndar, hvernig því verði háttað með breytingunum. Þar stendur nefnilega, með leyfi herra forseta:

„Forstöðumanni úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál skal boðið að taka við starfi forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum þessum með óbreyttum starfskjörum.“

Nú á sú nefnd að starfa í fimm ár, ef ég man rétt. Ég er búinn að kanna málið og þessi viðkomandi einstaklingur — þetta er mjög sérstakt, það er sagt í bráðabirgðaákvæði með lögunum að ákveðnum einstaklingi skuli boðið starfið, ákveðið starf, og hann verður meira að segja mjög valdamikill. Eins og kom fram í ræðu minni hefur hann mjög mikið að segja um alla málavexti. Hann hefur yfirumsjón með höndum og ber ábyrgð á daglegum rekstri úrskurðarnefndarinnar og ræður því hverjir fjalla um einstök mál þannig að þetta verður mjög valdamikill maður. Honum er boðið starfið samkvæmt lögum. Er þetta ekki mjög sérstakt, herra forseti? Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort honum finnist það ekki sérstakt að þessum manni skuli boðið starfið, fyrir utan það að ef hann verður þarna í fimm ár, eins og mér sýnist hann eiga að vera með óbreyttum kjörum, fer hann upp fyrir 70 ára aldursmark opinberra starfsmanna.