139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag er því miður ein af mörgum sem við höfum átt hér síðastliðin tvö, þrjú ár og snúast um að sá hópur sem hefur mjög tæpan meiri hluta í þinginu og fer þar af leiðandi með framkvæmdarvaldið reynir í ljósi þess meiri hluta að gjörbylta mörgum málum á Íslandi án þess að hafa leitað eftir því að um þau ríki meginsátt í samfélaginu. Þá er ég ekki endilega að tala um hér á þingi þó að það sé eðlilegasti mælikvarðinn á hvernig menn skiptast í sveitir, í það minnsta á fjögurra ára fresti, heldur að menn ruggi bátnum ekki um of.

Hér hefur öfgapólitík vaðið uppi um langt skeið, oft og tíðum í það minnsta, og á það ekki síst við um málefni er snerta atvinnumál, orkunýtingu, virkjanir og síðan hinn hluta þess, þ.e. umhverfisvernd eða umhverfissjónarmið. Það er þeim mun sérkennilegra þegar ríkisstjórnin og stjórnarliðar kenna sig gjarnan á sama tíma við hið norræna velferðarkerfi, fyrirmyndarríki Norðurlanda, og þá norrænu pólitík sem þar er því að þetta verður ekki aðskilið. Það er ástæða fyrir því að annars staðar á Norðurlöndum ríkir ákveðin sátt í pólitík. Þar er líka tekist á. Þar eru allur skalinn frá hægri til vinstri. Þar er tekist á um atvinnumál og umhverfismál, en það er ákveðin ástæða fyrir því að út á við virðist vera miklu meiri sátt í löndum eins og Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Þau virðast eiga miklu meira sameiginlegt en mörg önnur ríki. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þar hefur skapast sú — ég vil ekki kalla það hefð heldur má kannski frekar líkja því við samfélagssátt um að það sé fullkomlega eðlilegt þegar ný ríkisstjórn og ný öfl koma að stjórnarborði að þau fái að setja sinn svip á samfélagið. Öllum er jafnframt ljóst að ekki verður reynt að kollvarpa því samfélagi sem menn hafa búið við í áratugi eða árhundruð heldur verði hægfara breytingar sem um sé veruleg sátt. Hluti af þessu birtist í því að annars staðar á Norðurlöndum er hefð fyrir minnihlutastjórnum og þá þarf gjarnan að semja við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn eða nokkra stjórnarandstöðuflokka til að koma málum fram. Með þeim hætti verður á bak við allar stórar breytingar 70–80% fylgi.

Til hvers á að keyra mál hér í gegn með minnsta mögulega meiri hluta til þess eins að eftir næstu kosningar komi nýr meiri hluti sem var minni hluti áður og breyti þeim til baka? Það hefur engan skynsamlegan grunn. Þannig byggjum við ekki upp samfélag, herra forseti. Við gerum það hægt og rólega með því að hafa sátt og samlyndi um það sem við erum að gera og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem uppi eru.

Ég hef þennan langa inngang því að í þessu frumvarpi eða þessum frumvörpum er verið að fjalla um hluti sem um er held ég almenn sátt, um að fullgilda Árósasamninginn og jafnvel geta menn orðið ásáttir um þær úrskurðarnefndarleiðir sem hér eru farnar þó að ég ætli aðeins að hafa orð á því hér á eftir. En þegar síðan kemur að því með hvaða hætti á að fullgilda samninginn er ekki farið leið hinna norrænu velferðarríkja. Það er ekki einu sinni farin leið allflestra Evrópuríkja. Það er einungis Portúgal sem hefur farið þá leið að leyfa að hver einasti aðili í heiminum geti gert athugasemdir á framkvæmdasviði, farið í kæruferli og skapað þá hættu að hér verði hreinlega óstjórnhæft stjórnkerfi. Slíkt hefur engum dottið til hugar nema núverandi ríkisstjórn og núverandi stjórnarflokkum. Ég vil reyndar ekki trúa því að það sé meiri hluti í báðum stjórnarflokkunum fyrir þessu og vonast til að sú breytingartillaga sem minni hlutinn, hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Kristján Þór Júlíusson og Vigdís Hauksdóttir, hefur lagt fram muni ná fram að ganga. En hún snýst um að tengja þessa hagsmuni Íslandi, að aðilar þurfi að eiga varnarþing á Íslandi og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Það er miklu lógískara.

Í núverandi skipulagslögum sem við höfum haft er eðlilega möguleiki fyrir aðila að kæra, koma með athugasemdir. Ég man eftir dæmi um þorp í litlu samfélagi þar sem átti að breyta skipulagi og um það birtust 125 athugasemdir. Ein var frá íbúa í þorpinu. Þær voru nánast allar samhljóða, ljósritaðar eða afritaðar, og undirskrifaðar af fólki hvaðanæva af landinu, sumir bjuggu reyndar erlendis en voru íslenskir ríkisborgarar. Þetta hafði þau áhrif að það tók langan tíma að fjalla um þessar athugasemdir. Voru þær lögmætar? Voru þær skynsamlegar? Eða var þarna einhver hópur hagsmunaaðila sem ætlaði að koma í veg fyrir breytingarnar í þessu litla samfélagi? Einn aðili úr sveitarfélaginu gerði athugasemd. Hvað gæti ekki gerst hér þegar við opnum kæruferilinn fyrir öllum heiminum?

Mjög sérkennilegur er sá rökstuðningur meiri hlutans fyrir því að það sé eðlilegt eins og stendur á bls. 3, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur almenna kæruaðild í þessum tilvikum eðlilega skipan hérlendis. Veldur þar annars vegar að á Íslandi er samfélag fáliðans þar sem þau gildi standa djúpum rótum að virða beri viðhorf og sjónarmið hvers einstaklings, en hins vegar að ekki er um að ræða aðra sambærilega kosti sem styðjist við sérstaka hefð í réttarfari eða stjórnsýslu.“

Hvað stendur hér? Það er eiginlega óskiljanlegt. Svo neðar á sömu blaðsíðu, með leyfi forseta:

„Erfitt er að spá um það hver þróun kærufjölda yrði samkvæmt einstökum færum leiðum í þessu efni. Bent skal á að sú spá í athugasemdum með frumvarpinu, að fyrst í stað kynni kærum að fjölga um 30%, miðast annars vegar við það að kæruaðild verði almennari en nú er en hins vegar að kærur sem nú er fjallað um í …“ — ýmsustu ráðuneytum færist til nýju úrskurðarnefndarinnar.

Það veit sem sagt enginn hvað þetta þýðir. En áhættan er sú að við setjum í gang einhvers konar batterí sem enginn hefur stjórn á, enginn veit til hvers er. Við gætum líka fjallað um það. Til hvers á að hleypa öllum heiminum að kæruferli einstakra framkvæmda á Íslandi? Til hvers er það? Það hlýtur að vera til þess eins að búa til nýja leið til að tefja mál og gera þau flókin.

Við höfum á undanförnum árum séð dæmi þess að við getum ekki svarað því hversu langan tíma t.d. mat á umhverfisáhrifum tekur. Það hefur fælt frá erlenda fjárfestingu. Dæmi um slíkt var kísiliðja sem átti að koma upp í Þorlákshöfn, allar aðstæður voru taldar vera fyrir hendi en kísiliðjan endaði í Kanada, ekki vegna þess að menn fengu ekki skynsamleg svör eða óttuðust að mat á umhverfisáhrifum mundi enda með þeim hætti að verksmiðjan yrði talin óskynsamleg og óumhverfisvæn heldur vegna þess að við gátum ekki svarað hversu langan tíma ferlið tæki. Hvað erum við að gera hér? Við höfum ekki hugmynd um hvað er verið að búa til. Það veit enginn.

Síðan er fjallað um nýja úrskurðarnefnd. Fyrr í dag hafa ýmsir ræðumenn fjallað um að verið sé að setja upp nýtt batterí, heldur stærra en við þekkjum nú og þar af leiðandi með viðbótarkostnaði upp á einhverjar milljónir. Nú getur verið að menn telji að það sé ásættanlegur viðbótarkostnaður gegn því að þetta „fúnkeri“ á réttan hátt, stjórnsýslan virki. Í áliti minni hluta umhverfisnefndar, sem hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Birgir Ármannsson undirrita, kemur fram á bls. 2, með leyfi forseta:

„Árið 2010 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp 72 úrskurði. Að meðaltali tók það 15 og hálfan mánuð að kveða upp úrskurð í þessum 72 málum. Það tók úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir að meðaltali 40 vikur að kveða upp úrskurð sinn en þess má geta að lögbundinn frestur sem nefndinni er veittur til þess er á bilinu fjórar til átta vikur.“

Varðandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þekki ég fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi þar sem mál hafa þvælst þar í um tveggja eða þriggja ára skeið ef ekki lengur. Nú á að steypa öllum þessum málum saman en þau eru oft og tíðum háð mikilli sérþekkingu þannig að það er ekki ljóst í mínum huga að þetta muni ganga hraðar og einfaldar fyrir sig, hvað þá ef við tökum það með í reikninginn að meiri hlutinn sé í alvörunni að fjalla um að opna kæruferlið fyrir öllum heiminum í ákveðnum tilvikum. Það er ákaflega sérkennilegt, ég verð að segja það.

Ég nefndi það fyrr að við hefðum miðað við að taka fyrirmyndir frá öðrum Norðurlandaþjóðum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa oft og tíðum stært sig af, hin norræna velferðarstjórn. Ég tek undir að það á í mörgum tilvikum mjög vel við og er oft mjög skynsamlegt, enda eru þetta þau ríki sem við berum okkur helst saman við og viljum gjarnan bæði standast samanburð við og jafnvel skáka þeim í einstökum málum, ekki síst í íþróttum og slíku. Þetta eru vinaþjóðir okkar, þjóðir sem eru líkar okkur.

Þá kemur það fram í nefndaráliti minni hlutans, sem ég nefndi áður, að fæst aðildarríki Árósasamningsins hafa gengið jafnlangt og lagt er til í þessu frumvarpi og aðeins Portúgal hafi gengið alla leið.

Í nefndaráliti meiri hlutans er reynt að rökstyðja að þetta sé hið besta mál. Það er líka nefnt að actio popularis eða þessi almannaréttur um málsmeðferð sé við lýði í Portúgal. Síðan er fjallað um skýrslu og nefnd alls kyns lönd og sagt að að einhverju leyti sé þessi almenna túlkun við lýði þar, þ.e. Stóra-Bretland, Írland, Lettland að einhverju leyti, einnig eru nefnd Spánn og Eistland og Slóvenía, ákveðin málskotsheimild sé þar á einstökum sviðum í umhverfisrétti, og sums staðar í Litháen og Ítalíu og í Grikklandi sé jafnvel einhvers konar rýmri heimild. Þið hafið kannski tekið eftir því að ég hef ekki nefnt eitt einasta ríki á Norðurlöndum. Ég er búinn að telja hér upp allflest ríki Evrópu en ekkert einasta á Norðurlöndum, ekkert þeirra sem gengur svona langt. (Gripið fram í: Ég tók akkúrat eftir því.) Þetta er mér þess vegna algjörlega óskiljanlegt. Því í ósköpunum velur meiri hlutinn að ganga svo langt í þessu tilviki nema ef vera skyldi til þess eins að viðhalda hér öfgum, átökum um mál sem við eigum og ættum miklu frekar að reyna að sameinast um að ná skynsamlegri niðurstöðu um og hlusta á sjónarmið sem ganga hvað lengst í mismunandi áttir. Því er ekki að heilsa, því miður.

En eins og ég nefndi vonast ég til að sú breytingartillaga sem minni hlutinn í umhverfisnefnd hefur lagt til um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála muni ná fram að ganga. Það er nokkuð sem við þekkjum frá íslenskum rétti, frá öðrum Norðurlandaþjóðum og getum held ég öll sætt okkur við. Svo er spurning af hverju menn vildu ganga lengra. Ég hef ekki séð rökstuðninginn fyrir því í nefndaráliti meiri hlutans og heldur ekki í þeim ræðum sem ég hef heyrt hér um þetta mál, nema ef vera skyldi eins og hefur komið fram hjá einstaka ræðumönnum að tilgangurinn sé að setja framkvæmdaferlið í uppnám.

Það er til að mynda afar athyglisverð tafla á bls. 5 í fylgiskjali með nefndaráliti minni hlutans. Maður þarf reyndar að rýna í hana í drjúglanga stund til að átta sig á því hvað sé í gangi.

Þegar við bætist að menn geti orðið vanhæfir á mismunandi stigum í kæruferlinu hljómar þetta eins og kæruferli sem menn eru ásáttir um að geti tekið tvær, fjórar, sex vikur, geti tekið ár, jafnvel orðið endalaust af því að stjórnsýslan í svo litlu fáliðuðu landi ræður ekki við slíkt fyrirbæri ef hingað kæmi stormur af kærum sem væri hægt að blása til báls meðal einhverra samtaka í Evrópu sem gætu sent inn ótal kærur og athugasemdir á mismunandi stigum.

Við höfum því miður séð dæmi þess í virkjanamálum að öfgahópar, sannarlega sumir hverjir, hafa komið fram, jafnvel erlendir. Við sjáum kannski ekki augljósa hagsmuni þeirra í því að stöðva framkvæmdir. Ef það væri vegna þess að menn hefðu áhyggjur af hlýnun andrúmsloftsins væri auðvitað miklu skynsamlegra að virkja hér á landi. Vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eru með endurnýjanlegum orkugjafa og skila ekki til loftslags heimsins því sama og þau lönd þar sem verið er að brenna bæði olíu og kolum sem er oftast sá valkostur sem er nýttur við orkuöflun til að knýja virkjanir eða verksmiðjur.

Ég ætla að enda þetta, virðulegi forseti, á því að hvetja umhverfisnefnd til að taka þetta mál til sín aftur og fjalla vel um það. Ég legg til að menn skoði af sanngirni og skynsemi þá breytingartillögu sem ég hef nefnt í tvígang í ræðu minni. Á þeim forsendum gætu menn náð samkomulagi um að breyta í ákveðna átt, þá átt sem meiri hlutinn vill fara, í stað þess að ganga algjörlega leiðina á enda, jafnvel fram af hengibrún sem ég óttast að mundi verða niðurstaðan ef menn færu leið meiri hlutans í málinu.