139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að hv. þingmaður deilir þeim áhyggjum með mér að það geti gerst að menn fari að senda inn það margar kærur að í raun og veru sé ekki möguleiki á að uppfylla skilyrði um það sem er talin eðlileg stjórnsýsla við úrskurð, kannski fjórar til átta vikur. Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni og nefndi dæmi úr Þorlákshöfn þar sem menn hrukku frá því að fara í fjárfestingar og uppbyggingu vegna þess að ekki var hægt að svara því hver væri áætlaður tími. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sakni þess ekki, eins og til að mynda mér fannst vanta í nefndarálit meiri hlutans í hv. umhverfisnefnd, í fyrsta lagi hvað mundi hugsanlega gerast, það voru settir miklir fyrirvarar við það í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, og hvernig menn ætla að vinna upp þann stabba sem er fyrir í dag, klára hann þannig að málin komist í eðlilegan farveg.

Mér finnst þetta líka sérkennilegt í ljósi þess að við eigum eftir að taka fyrir þingsályktunartillögu um rammaáætlun sem væntanlega verður rædd á haustþinginu, þá verða menn kannski búnir að taka stærstu póstana út fyrir og komast að niðurstöðu um þá með því að setja í nýtingarflokk og verndunarflokk og eins í biðflokk. Finnst hv. þingmanni ekki sérkennilegt að stíga svona stórt skref núna með fullgildingu Árósasamningsins og langt umfram það sem allir aðrir eru að gera einmitt þegar við höfum reynslu af því hvað þetta getur kallað á, vandkvæði á að þessar nefndir geta ekki úrskurðað?

Loks langar mig líka að spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar hvort hann geti tekið undir það sjónarmið sem ég kom inn á í ræðu minni áðan að í raun og veru sé verið að búa til einhver pappírsstörf til að hræra í kærum frá útlendingum. Á sama tíma er verið að segja upp starfsfólki á heilbrigðisstofnunum. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að þetta sé að sjálfsögðu ekki rétt forgangsröðun heldur pólitísk ákvörðun eins og kemur fram í nefndarálitinu?