139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get upplýst að ég hlustaði ekki á viðtalið við Þórunni Sveinbjarnardóttur í Kastljósinu í gær en ég hef heyrt af ummælum hennar. Ég tel að hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sé eldri en tvævetur í pólitík, hún hefur setið í ríkisstjórn og veit að í samstarfi í stjórnum er skoðanaágreiningur. Hann kemur fram innan ríkisstjórnarinnar og hann kemur fram út á við.

Það er enginn bilbugur á okkur, þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, við að sitja út þetta kjörtímabil. Við tókum að okkur það erfiða verkefni með Samfylkingunni að koma okkur út úr þeim hremmingum sem við höfum staðið í og það er enginn bilbugur á okkur þannig að því sé svarað. Við höfum haft úthald þessi tvö erfiðu ár og ég tel að við höfum öll úthald til að halda áfram þegar mestu erfiðleikarnir eru að baki.

Uppstokkun í ríkisstjórninni hefur ekki verið rædd. Hún verður rædd innan þingflokkanna áður en við ræðum hana hér. Hitt er aftur annað mál að frá fyrsta degi hefur verið einlæg krafa Sjálfstæðisflokksins að þessi ríkisstjórn segi af sér vegna þeirrar verkleysu sem hér hefur átt að vera þessi ár. (Gripið fram í: Alveg rétt.) Verkleysan skilar sér í ýmsum hagtölum sem eru að koma fram. Hvort sem Sjálfstæðisflokknum líkar betur eða verr komumst við í gegnum þessi tvö erfiðu ár. Þau eru að baki og við ætlum að halda áfram og koma þjóðinni á rétta braut með breyttum áherslum frá því sem var fyrir hrun.